25. mars 2016
Heklað páskaegg - uppskrift
Ég er föndrari af lífi og sál eins og nafn bloggsins gefur til kynna og fyrir ansi mörgum árum dundaði ég mér við að blása úr eggjum sem ég svo málaði og skreytti fyrir páska. Þið getið séð myndir sem ég tók af þeim hér. Mig langaði því til að prófa að hekla utan um egg sem ég væri búin að blása úr. Ég rakst á nokkrar uppskriftir á netinu og prófaði að hekla tvö sem voru mjög sæt (sýni ykkur þau von bráðar) en svo langaði mig til að hekla bara upp úr mér með Skeljakrukku mynstrinu.
Ég var mjög ánægð með útkomuna og ákvað að hekla utan um annað egg og skrifa uppskriftina niður og gefa ykkur í tilefni páskanna :) Ég komst að því að egg eru mjög mismunandi að stærð og því var seinna eggið mun stærra en hið fyrra. Þið gætuð því þurft að aðlaga uppskriftina að egginu sem þið eruð að hekla utan um hverju sinni.
Heklað páskaegg
Ekki afrita og dreifa uppskriftinni sjálfri en þið megið að sjálfsögðu deila linknum á uppskriftina að vild.
Efni og áhöld:
1,5 mm heklunál,
Heklugarn nr. 10,
1 hænuegg.
Skammstafanir:
ll = loftlykkja,
kl = keðjulykkja,
fl = fastalykkja,
st = stuðull,
llb = loftlykkjubogi,
L = Lykkja,
umf = umferð,
2hstsam = úrtaka, fara með nálina í næstu L og ná í bandið, slá bandinu upp á og fara með nálina í næstu L og ná í bandið, slá bandinu upp á og fara í gegnum allar 4 L á nálinni.
Athugið í byrjun umferðar gerið þá 3 ll í staðinn fyrir st.
Aðferð:
Skolið eggið og þurrkið. Blásið úr egginu en það er gert með því að gera gat á breiðari enda eggsins með grófri nál eða títuprjóni, stingið nokkrum sinnum þannig að gatið verði ca 2-3 mm í radíus, gerið svo annað gat að ofanverðu en hafið það minna. Passið að það komi ekki sprunga í eggið því að ef það gerist þá fáið þið allt gumsið framan í ykkur. Blásið því næst í minna gatið yfir skál og þá ætti eggjahvítan og svo rauðan að leka út úr egginu. Skolið vel og látið þorna.
Þegar eggið er orðið þurrt þá er hægt að fara að hekla utan um það en athugið að eggið er að sjálfsögðu viðkvæmt þannig að þið þurfið að fara blíðum höndum um það :) Þið getið málað eggið áður eða einfaldlega heklað utan um það með heklugarni sem er ekki samlitt. Ég notaði stór brún vistvæn egg og hvítt heklugarn.
Heklað utan um egg:
Gerið galdralykkju (magic ring).
1. umf: 20 stuðlar í hringinn. Dragið galdralykkjuna saman, kl í fyrsta st.
2. umf: *st, ll, hopppa yfir næstu L, (2 st, ll, 2 st) í næstu L, ll, hoppa yfir næstu L*, endurtaka það sem er á milli * * 4 sinnum til viðbótar, kl í 3. ll í upphafi umf. (samtals 5 stuðlahópar og 5 stuðlar).
3. umf: *st í st frá fyrri umf, 2 ll, (2 st, ll, 2 st) í gatið á milli stuðlahópanna, 2 ll*, endurtakið það sem er á milli * * út umf, kl í 3. ll í upphafi umf.
4. umf: *st, 2 ll, (3 st, ll, 3 st) í gatið á milli stuðlahópanna, 2 ll*, endurtakið það sem er á milli * * út umf, kl í 3. ll í upphafi umf.
5. umf: *st, 3 ll, (3 st, ll, 3 st) í gatið á milli stuðlahópanna, 3 ll*, endurtakið það sem er á milli * * út umf, kl í 3. ll í upphafi umf.
6. umf: eins og 4. umf.
7. umf: eins og 4. umf (þið gætuð þurft að sleppa þessari umf ef eggið er minna).
8. umf: *st, ll, (3 st, ll, 3 st) í gatið á milli stuðlahópanna, ll*, endurtakið það sem er á milli * * út umf, kl í 3. ll í upphafi umf.
9. umf: eins og 8. umf (þið gætuð þurft að sleppa þessari umf ef eggið er minna).
10. umf: eins og 2. umf. Þarna þurfti ég að setja eggið inn í stykkið áður en ég kláraði umferðina. Gott að ganga frá upphafsendanum áður.
11. umf: *st í næsta st, 2 ll, fl í gatið á milli stuðlahópanna, 2 ll*, endurtakið það sem er á milli * * út umf, kl í 3. ll í upphafi umf.
12. umf: ll, *2 fl í llb, hoppa yfir fl, 2 fl í llb, hoppa yfir st*, endurtakið það sem er á milli * * út umf, tengið með kl í ll í upphafi umf.
13. umf: ll, 2hstsam út umf, tengið með kl. Endið á því að gera 2-3 ll og tengið með kl þvert yfir opið en þetta nota ég sem upphengilykkju sem ég festi skrautborða í til að geta hengt eggið upp. Klippið og gangið frá enda.
© Ólöf Lilja Eyþórsdóttir - það má ekki afrita uppskriftina á neinn máta án míns samþykkis.
Hér er svo linkur á uppskriftina á Ravlery fyrir þau ykkar sem eru þar:
http://www.ravelry.com/patterns/library/easter-egg-15
0 comments:
Skrifa ummæli