Pages

8. nóvember 2013

Hekluð krukka - uppskrift

Mér þykir rosalega gaman að hekla utan um krukkur en það er svo gaman að endurnýta eitthvað í stað þess að fleygja því í ruslið. Nú er akkúrat tíminn fyrir kertaljós og kósýheit þannig að ég skellti í eina uppskrift í stað þess að hekla bara af fingrum fram. Ég var nefnilega búin að sjá að það er ekkert svakalega mikið um uppskriftir á íslensku og vil því leyfa fleirum að njóta :)

Það er hins vegar svolítið tímafrekt að búa til uppskriftir ef maður vill vanda vel til verks og sérstaklega utan um krukkur því að það þarf að vera hægt að aðlaga uppskriftina að ýmsum stærðum. Uppskriftir vilja líka breytast svolítið frá fyrstu týpu þannig að ég eyddi töluverðum tíma í þetta en ég vona að þið verðið sátt við útkomuna.

Hekluð krukka - uppskrift

Skeljakrukka

Það getur þurft að aðlaga svolítið uppskriftirnar eftir því hvernig krukku og/eða garn er verið að nota. Ég mæli með því að hekla botn undir krukkurnar því að mér finnst annars flöturinn undir hitna mikið. Svo er auðvitað gott að minnast á mikilvægi þess að skilja aldrei logandi kerti í krukkunum án eftirlits.

Ég nota bómullargarn s.s. Bianca frá Marks, Cotton 8/4 Merceriseret frá Mayflower eða Bomuld 8/4 Merceriseret frá Løve Garn, 2,5 mm heklunál og krukku undan hnetusmjöri frá Sollu.

Skammstafanir:
ll = loftlykkja,
kl = keðjulykkja,
fl = fastalykkja,
st = stuðull,
tbst = tvöfaldur stuðull,
llb = loftlykkjubogi,
L = lykkja,
umf = umferð,
2stsam = úrtaka, *slá bandinu upp á, fara með nálina í næstu L og ná í bandið, [slá bandinu upp á og draga í gengum tvær L]; endurtaka frá * 1 sinni til viðbótar, slá bandinu upp á og draga í gegnum allar 3 L á nálinni.

Botn:
Gerið galdralykkju (magic ring).
1. umf. 3 ll (telur sem st), 9 st utan um hringinn, tengja með kl í 3. ll. Dragið galdralykkjuna saman (samtals 10 st).
2. umf. 3 ll (telur sem st), 1 st í sömu L, *2 st í hverja L* endurtaka út umf það sem er á milli * *, tengja með kl í 3. ll (samtals 20 st).
3. umf. 3 ll (telur sem st), 1 st í sömu L, 1 st, *2 st í sömu L, 1 st* endurtaka út umf það sem er á milli * *, tengja með kl í 3. ll (samtals 30).
4. umf. 3 ll (telur sem st), 1 st í sömu L, 2 st, *2 st í sömu L, 2 st* endurtaka út umf það sem er á milli * *, tengja með kl í 3. ll (samtals 40).

Núna þekur stykkið nánast botn krukkunar en ef þið eruð með stærri krukku þá getið þið fjölgað umf með sama sniði þ.e. st á milli fjölgar um 1 í hverri umf þannig að næst yrði gert 2 st í sömu L, 3 st.

Krukkan:
Mynstrið sjálft er margfeldi af 8. Þannig að þið þurfið að aðlaga næstu umf að mynstrinu ef þið eruð með fleiri umf í botninum. Ef ykkur finnst stykkið vera of þröngt og of vítt með því að fjölga endurtekningum þá er hægt að bæta við ll sitt hvorum megin við tbst. Gott að prófa að setja krukkuna í stykkið eftir 6.-7. umf til að sjá hvort að stykkið sé nokkuð of vítt á krukkunni.

5. umf. 3 ll (telur sem st), *1 st í hverja L* endurtaka út umf það sem er á milli * *, tengja með kl í 3. ll (samtals 40 st).
6. umf. 4 ll (telur sem tbst), *hoppa yfir 3 L, (3 tbst, ll, 3 tbst) í næstu L, hoppa yfir 3 L, 1 tbst í næstu L* endurtaka út umf það sem er á milli * * en sl síðasta tbst í síðustu endurtekningunni, tengja með kl í 4. ll.
7. umf. 4 ll (telur sem tbst), *(3 tbst, ll, 3 tbst) í gatið á millið stuðlahópanna, 1 tbst í næsta tbst* endurtaka út umf það sem er á milli * * en sl síðasta tbst í síðustu endurtekningunni, tengja með kl í 4. ll.

Endurtakið 7. umf. þar til stykkið nær upp að háls krukkunar með því að toga það svolítið upp. Mér þykir fallegra að hafa stykkið þétt um krukkuna. Ég gerði 7. umf samtals 5 sinnum.

Þið gætuð þurft að smeygja krukkunni í stykkið fyrir næstu umf en annars eftir hana. Gangið frá upphafsendanum áður en þið haldið áfram.

12. umf. 6 ll (telur sem st og 3 ll), *1 fl í gatið á milli stuðlahópanna, 3 ll, 1 st í tbst, 3 ll* endurtaka út umf það sem er á milli * * en sleppið að gera st í tbst og 3 ll í síðustu endurtekningunni, tengja með kl í 3. ll.

Háls:
Gott að reyna að hekla nokkuð fast næstu umferðir.

13. umf. *4 fl í næsta llb, sl fl, 4 fl í næsta llb, sl st* endurtaka út umf það sem er á milli * * en endið á því að gera 4 fl í síðasta llb og tengja með kl í fyrstu fl (samtals 40 fl)

Þá er komið að því að þrengja opið en þarna gætuð þið þurft að aðlaga úrtökuna að ykkar krukkum því að hálsarnir eru mjög mismunandi eða jafnvel fækka eða fjölga umferðum.

14. umf. 3 ll (telur sem st), 1 st í hverja L út umf. en takið úr 5 L með reglulegu millibili með því að hekla 2stsam (samtals 35 st).
15. umf. 3 ll (telur sem st), 1 st í hverja L (samtals 35 st).
16. umf. heklið krabbahekl (fl heklaðar í öfuga átt) í hverja L.
Klippið og gangið frá endanum.

Svo er bara um að gera að skella einu sprittkerti í og njóta :)

© Ólöf Lilja Eyþórsdóttir - það má ekki afrita uppskriftina á neinn máta án míns samþykkis.

Hér er svo linkur á uppskriftina á Ravlery fyrir þau ykkar sem eru þar:
http://www.ravelry.com/patterns/library/skeljakrukka---crochet-jar-cover

Hekluð krukkaKrukkuhekl

10 ummæli:

  1. Kærar þakkir fyrir uppskriftina, hlakka til að hekla eftir henni!

    SvaraEyða
  2. Takk kærlega fyrir þetta. Frábært að fá uppskrift.

    SvaraEyða
  3. Ég er að hekla eftir þessari uppskrift en ég skil ekki í 13 umferð þá á að gera 4 fl í næsta llb, sl fl hvað þýðir það og sl st.

    Guðrún

    SvaraEyða
  4. Kærar þakkir fyrir þessa frábæru uppskrift, ég er þegar búin að hekla utan um nokkrar krukkur.
    Kveðja, Anna Björg.

    SvaraEyða
  5. Guðrún: eins og segir í uppskriftinni þá á að sleppa fl og sleppa st þeas það er ekkert gert í þær lykkjur... þannig að þú átt að gera 4 fl í hvern llb

    SvaraEyða
  6. Ok takk fyrir þetta ég var bara ekki að skilja þetta. :)

    Guðrún

    SvaraEyða
  7. 4. umf. 3 ll (telur sem st), 1 st í sömu L, 2 st, *2 st í sömu L, 2 st* endurtaka út umf það sem er á milli * *, tengja með kl í 3. ll (samtals 40).
    Getur hjálpa mér með þessa umferð. 2 st í L (það skil ég) en átt mig ekki á 2st

    SvaraEyða
  8. Sæl :)
    Ég er ekki vön því að hekla, en er að klára að hekla utan um mína fyrstu krukku eftir uppskriftinni þinni. Frábærlega vel útskýrt hjá þér.
    Takk fyrir mig :)

    kv. Heiðrún

    SvaraEyða
  9. Mikið er þetta fallegt hjá þér og takk fyrir að deila uppskriftinni.

    SvaraEyða