Pages

18. september 2016

Maia sjalið mitt


Ég er rosalega skotin í nýjasta sjalinu mínu... finnst það svo fallegt. Eins og ég hef áður sagt þá er Lisa Naskrent (crochetgarden.com) uppáhalds sjalahönnuðurinn minn og þetta er einmitt eftir hana. Ég hef heklað nokkur sjöl eftir hana og á örugglega eftir að hekla fleiri :)

Ég ákvað að hekla þetta sjal úr garni sem ég átti í "hrúgunni" minni en ég hafði fengið manninn minn til að bera það heim frá Ameríku fyrir nokkrum árum. Ég reyndar verð að viðurkenna að ég persónulega er hrifnari í dag af einlitu garni en ég átti þetta bara til og því notaði ég það ;)


Garnið er frá Knitpicks og heitir Shimmer en það er hætt framleiðslu á því. Garnið er yndislega mjúkt en það er 70% úr Baby Alpaca og 30% silki og er handlitað.

Það gekk vel að hekla sjalið en eins og svo oft áður þá dugði garnið ekki í fyrstu tilraun en ég sá það á næst síðustu umferðinni... þannig að ég þurfti að rekja meira en 1/3 af sjalinu upp til að hætta fyrr í fyrsta mynstrinu... en það er svo gaman að hekla að það gerði ekkert til ;) Ég myndi reyndar aldrei hugsa svona ef sjalið væri prjónað því að það er ofar mínum skilningi hvernig það er hægt að rekja upp margar umferðir (ekki nema með hjálparlínum) og er ég nú með eitt hálf prjónað sjal sem ég fékk ekki til að ganga upp og ég held bara að ég reki það upp og hekli úr garninu frekar!


Sjalið stækkaði mikið þegar ég strekkti það og varð svo miklu fallegra fyrir vikið þar sem mynstrið opnaði sig svo vel. Ég tel að það sé fallegra að hafa stærri nál en minni ef maður sé maður í vafa hvort að maður eigi að hækka upp eða lækka niður í númeri ;) Ég snappaði sjalaþvottinn og strekkinguna frá A-Ö eins og þeir sem fylgja mér á Snapchat (notandanafnið mitt er fondrari) hafa sennilega séð en ég vistaði söguna og þið getið séð hana hér:
https://www.facebook.com/Fondrari/videos/1095410463885944/

Flottustu sjölin sem ég hef heklað að mínu mati eru eftir Lisa Naskrent og eru hérna í þeirri tímaröð sem ég gerði þau:
    

    

Ég er ekki nógu ánægð með myndina af sjalinu útbreiddu og ætlaði að reyna að taka betri myndir en ég nenni ekki að bíða lengur með að blogga um þetta svo að þessar myndir verða bara að duga ;)

Garn: Knit Picks Shimmer Hand Dyed Lace Yarn
Heklunál: 4,5 mm
Uppskrift: http://www.ravelry.com/patterns/library/maia-shawl

Engin ummæli:

Skrifa ummæli