Pages

17. september 2019

Hlekkur lopapeysa - prjónuð ofan frá

Hlekkur lopapeysa

Ég er ódugleg að skella inn póstum hingað inn á bloggið... en er aðeins duglegri að skella myndum inn á Facebook síðuna. Nú er ég loksins sest fyrir framan tölvuna og get farið að blogga en ég kláraði peysuna 1. júlí sl. 😆

Þar sem ég nenni ekki að gera prjónafestuprufur og prjóna svo laust að þá finnst mér best að prjóna þær ofan frá svo að það sé hægt að máta þær eins og manni hentar til að sjá strax hvort að þær komi til með að passa. Þegar ég prjóna ofan frá þá í rauninni nota ég bara uppskriftina í blaðinu en les þær eðilega öfugar þannig að ég byrja á hálsmálinu og eyk þá út í mynstrinu í staðinn fyrir úrtöku. Mér finnst þessi aðferð vera sú eina rétta og svo þarf maður ekkert að lykkja saman undir höndunum 😉

Prjónuð ofan frá

Eins og sést á myndinni þá var ég að prjóna upp úr peysukjól sem ég ætlaði að prjóna á mig fyrir nokkrum árum síðan og hann varð alltof víður á mig þegar ég byrjaði á mynstrinu og ég henti þessu frá mér... nú er ég að reyna að nýta það sem maður á og minnka í leiðinni draslið í skápunum 😉

Sumarið var yndislegt og gat ég því verið í útilegum að prjóna... og máta peysuna jafnóðum. Ég jók smá út í hliðunum þannig að peysan fékk smá A-snið en það snið hentar mér betur en beinar peysur. Þar sem sumarið var svo gott að þá ákvað ég strax og ég var búin með þessa peysu að skella í Riddara á eiginmanninn.

Gott að geta mátað

Ég er alveg ánægð með peysuna en samt finnst mér mynstrið vera full stórt og ég var alls ekki hrifin af hálsmálinu og það endaði með því að ég heklaði eina umferð meðfram því með svörtu. Svo hefði ég viljað hafa meiri mun á milli gráu litanna en ég hafði átt ljós gráan en mér fannst hann falla svo inn í hvíta litinn og mynstrið varð ekki nógu skýrt.

Garn: Ístex léttlopi
Prjónar: 3,5 og 4,5 mm
Heklunál: 4,0 mm
Uppskrift: Hlekkur úr Lopi 28

Engin ummæli:

Skrifa ummæli