20. júlí 2012

Fleiri heklaðir blómapottar

Ég er eitthvað löt þessa dagana... það koma alveg dagar þar sem ég hvorki hekla né prjóna... er búin að vera á þvælingi í sumarfríinu ;) Annars er ég með tvö sjöl í gangi þar sem ég á bara kantinn á þeim eftir... reyndar er annað með kanti en mér fannst hann ekki nógu flottur þannig að ég er að bíða eftir hugljómun... svo er ég með lopapeysu á eina frænku á prjónunum og gríp í hana annað slagið og svo er ég búin að vera að hekla svolítið bleikt fyrir Sumar á Selfossi sem verður 11. ágúst... ætla ekki að skella neinum myndum inn af því fyrr en þá :)

Ég ákvað að skella inn myndum af þremur blómapottum í öðrum litum en bleikum... ég ætlaði að vera búin að hekla miklu fleiri því að góð vinkona reddaði mér svo mörgum tómum skyrdósum... en ég týndi heklunálinni sem ég notaði og var bara að finna hana... auðvitað hafði ég stungið henni inn í einhverja garnhnotu ;)





Ég þarf að hekla utan um fleiri því að ég á enn nokkur blóm í skyrdollum... ég er svolítið skotin í sumarlegum litum þessa dagna og finnst svolítið gaman að hafa fleiri en einn lit... reyndar held ég að ég nenni ekki að ganga frá svona mörgum spottum þannig að ég held að tvílitt sé málið ;)

2. júlí 2012

Heklað utan um skyrdós - uppskrift

Ég ákvað að hripa niður hvernig ég geri pottana þar sem nokkrir voru að biðja um uppskrift... amk svona gerði ég mína blómapotta en auðvitað getur verið að einhverjir aðrir hekli fastar eða lausar en ég :) Þegar ég var búin að hekla og setti utan um dósina þá náði heklið ekki alveg upp á brún en þegar ég hengi pottana með blómi í upp á krókinn þá strekkist á og þá nær heklverkið alveg upp að brúninni á dósinni.

Uppskrift af hekluðum blómapottum (heklað utan um skyrdós)

Efni og áhöld:
Garn mandarin petit, heklunál 3,5 mm, javanál til að ganga frá endum, stór skyrdós, hvítt málningarsprey (sem tollir á plasti), krókur og/eða naglar.

Aðferð:
1. umf. 4 loftlykkjur (ll) sem telst sem fyrsti stuðull, 11 stuðlar (st) í fyrstu ll. Tengja með keðjulykkju (kl) í 4 ll. Samtals 12 stuðlar.

Í öllum umferðum sem koma á eftir þá fer ég til skiptist með 1 kl áfram eða 1 kl aftur á bak þannig að samskeytin verða á sínum stað :)

2. umf. kl, 4 ll, * st, ll* (endurtaka út umferðina það sem er á milli * *) tengja með kl í 3 ll.
3. umf. kl, 4 ll, st, ll í sama loftlykkjuboga (llb), *st, ll, st, ll* í hvern loftlykkjuboga. Tengja með kl í 3 ll.
4.-6. umf. kl, 4 ll, * st, ll* í hvern llb. Tengja með kl í 3 ll.
7. umf. kl, 4 ll, * st, ll* í hvern llb, ll. Tengja með kl í 3 ll.
8.-13. umf. kl, 5 ll, * st, ll* í hvern llb, ll. Eyk út því að dollan er ekki bein. Tengja með kl í 3 ll.
14. umf. ll, fastalykkjur (fl) í hverja lykkju nema í lokin þrengdi ég um eina. Tengja saman með kl. Samtals 47 fl.

Klippa enda (hafa smá spotta) og ganga frá endunum þannig að þræða spottann svona tvo hringi utan um gatið á samskeytunum.

Ég (reyndar maðurinn minn) setti upp krók á skjólvegginn og hengdi blómapottinn á en mér fannst þetta vera á fleygiferð í roki þannig að maðurinn minn setti tvo nagla sitt hvorum meginn neðst við pottinn... og ég er að vonast til þess að potturinn verði kyrr... annars væri líka möguleiki að hengja pottinn upp á tvo króka :)