17. mars 2019

Hekluð gardína

Ég átti víst alltaf eftir að blogga um eldhúsgardínuna mína sem tók nokkur ár að hekla reyndar með löngum hléum... en ég var reyndar búin að pósta mynd á Facebook síðunni í nóvember 😉

Hekluð gardína

Ég flutti fyrir 5 árum og var staðráðin í að hekla mér eldhúsgardínu og hafði verið búin að kaupa gardínublað einhverju áður og hófst handa reyndar tæpu ári eftir að ég flutti eða í janúar 2015 (sé það inni á Ravelry sem er snilld til að halda utan um alla hluti).

Hekluð eldhúsgardína í vinnslu

Þar sem mér leiðist afskaplega að vera endalaust að gera það sama þá kastaði ég þessu verkefni ansi oft frá mér og að lokum bara gleymdist það inni í skáp. Ég rakst svo á þetta aftur í október í fyrra og fletti upp hvenær ég hefði byrjað á því og þá ákvað ég að nú væri kominn tími á að klára og láta ekki enn fleiri ár líða 😂 Ég sá að það var mjög lítið eftir þannig að ég sat stíft við til að klára og upp skyldu gardínunar fyrir jól... það gerðist en ég reyndar uppskar geðveika vöðvabólgu í kjölfarið 😏

Kafégardin med spindler

Hekluð gardína í strekkingu

Það var pínu mál að strekkja gardínuna þar sem hún er svo löng en ekkert mál með góðum græjum 😁 Ég keypti þessa mottu á bland.is á sínum tíma og strekkivírana í Handprjón og hef sko notað þá mikið. Eina sem ég áttaði mig ekki á var hve gardínan lengdist mikið við strekkingu en ég gerði alveg ráð fyrir smá en þetta var mun meira en ég bjóst við svo að þá varð bara smá rykking/fellingar á gardínunni í glugganum.

Garn: Solberg Garn 12/4 Mercerisert
Heklunál: 1,75 mm
Uppskrift: Kafégardin med spindler úr Solberg hefte nr. 48

16. mars 2019

Undurfagurt ungbarnateppi #2

Ég heklaði þetta teppi fyrir nokkuð löngu síðan en átti alltaf eftir að þvo það og strekkja. Ég var að bíða eftir að lítill strákur myndi fæðast í kringum mig en mér þykir mjög gott að eiga ungbarnateppi á lager svo að maður sé ekkert í stressi að hekla 😃

Mayflower baby blanket

Mayflower baby blanket

Mayflower baby blanket

Mayflower baby blanket

Ég fékk loksins tækifæri til að hitta litla manninn í dag og því get ég loksins bloggað um þetta... en ég sé að það er komið meira en ár síðan ég bloggaði síðast... svo að ég get líka óskað ykkur gleðilegs árs 😜

Þetta er í annað sinn sem ég hekla þetta teppi en þið getið skoðað það fyrra hér. Mér finnst þetta enn vera fallegasta ungbarnateppið en ég á alltaf í smá vandræðum með kantinn... mynstrið er smá snúið í upphafi en svo þegar maður fattar það þá er þetta ekkert mál 😉

Garn: King Cole Cottonsoft
Heklunál: 5,5 mm
Uppskrift: http://www.ravelry.com/patterns/library/mayflower-baby-blanket

7. mars 2018

Ullarsokkar og vettlingar í stíl

 Ullarsokkar og vettlingar í stíl

Ég held áfram að prjóna úr öllum þessum plötulopa sem ég á... systir mín óskaði eftir ullarsokkum handa sex ára frænda mínum og ég gerði það með glöðu geði og ákvað svo að prjóna vettlinga í stíl :)

Yrjóttir lopasokkar

Ég held að mér finnist skemmtilegra að prjóna ullarsokka en vettlinga amk skiptir engu máli á hvorn fótinn sokkurinn passar en ég lenti í því að ég er búin að prjóna tvo hægri handarvettlinga og nenni ekki að prjóna tvo vinstri handar til viðbótar *andvarp*

Yrjóttir barnasokkar í fimm stærðum

Mér fannst þeir koma skemmtilega út þ.e.a.s. að hafa þá svona yrjótta en ég notaði plötulopa í þremur brúntóna litum. Þannig að mér fannst frændi þyrfti að eiga hlýja vettlinga í stíl við ullarsokkana :)

Yrjóttir lopavettlingar

Ég fann strax aðra uppskrift úr vettlingabókinni góðu... en ég verð nú samt kannski að fara að skoða fleiri uppskriftir og kannski að prjóna einhverja þar sem skiptir ekki máli á hvora höndina þeir eru ;)

Vettlingar fyrir 4-10 ára úr þreföldum plötulopa

Þeir komu ágætlega út og ég auðvitað passaði mig sérstaklega á því að gera vinstri handar vettling ;) Svo passa þeir betur á frænda minn heldur en þessir röndóttu sem voru úr tvöföldum plötulopa og svo eru þeir pottþétt hlýrri.

Sokkar: 
Garn: þrefaldur plötulopi í þremur brúnum tónum
Prjónar: 5,5 mm.
Uppskrift: Yrjóttir barnasokkar í fimm stærðum úr bókinni Sokkar og fleira

Vettlingar:
Garn: þrefaldur plötulopi í þremur brúnum tónum
Prjónar: 4,5 og 6,0 mm.
Uppskrift: Vettlingar fyrir 4-10 ára úr þreföldum plötulopa úr bókinni Vettlingar og fleira

2. mars 2018

Röndóttir vettlingar handa frænda


Sex ára frændi minn kom í heimsókn til mín um síðustu helgi og pantaði hjá mér vettlinga og þeir áttu að vera röndóttir bláir og svartir... og auðvitað prjónaði frænka svoleiðis vettlinga handa honum :)


Ég notaði uppskrift sem heitir Fluguvettlingar fyrir 4-10 ára en breytti aðeins því að ég notaði tvöfaldan plötulopa og gerði því stærstu stærðina... þeir smellpössuðu en hefðu mátt kannski vera örlítið stærri ef eitthvað er... þannig að ætli ég prjóni ekki fleiri vettlinga handa honum og svo pantaði systir mín ullarsokka á hann... þannig að ég sé alveg fram á smá dund á næstunni :)


Garn: tvöfaldur plötulopi
Prjónar: 4,0 mm og 5,0 mm
Uppskrift: Fluguvettlingar fyrir 4-10 ára við bókina Vettlingar og fleira

18. febrúar 2018

Lopavettlingar úr tvöföldum plötulopa

Lopavettlingar úr tvöföldum plötulopa

Það er svo gaman að prjóna úr lopa... þrátt fyrir að allt heimilið verði loðið og mig klæi í nefið ;) Ég á svo mikið af lopa að ég ætla að dunda mér við að prjóna fullt af vettlingum úr afgöngunum enda veitir ekki af að eiga góða og hlýja lopavettlinga í þessari veðráttu :)

Þessir eru úr bókinni Vettlingar og fleira eftir Kristínu Harðardóttur en ég er búin að eiga þessa bók í mörg ár en ég man ekki hvort að ég hafi nokkuð prjónað úr henni áður... fínasta uppskrift og mun vonandi prjóna fleiri vettlinga úr bókinni svo að það grynnki aðeins í garnhrúgunni minni ;)

Garn: tvöfaldur plötulopi
Prjónar: 4,0 mm og 5,0 mm
Uppskrift: Nokkrir mynstraðir vettlingar úr tvöföldum plötulopa úr bókinni Vettlingar og fleira

11. febrúar 2018

Skjaldmey - lopapeysa

Ég prjónaði fyrir nokkrum árum síðan lopapeysu á mig úr tvöföldum lopa sem ég hef notað mikið... svo mikið að það eru komin göt á hana og því varð ég að prjóna mér nýja. Mig hafði lengi langað til að gera Skjaldmey eða alveg síðan Lopablaðið kom út og ég sá hana í blaðinu... en aldrei gefið mér tíma í að prjóna eina slíka. En nú var auðvitað kjörið að nýta tækifærið þar sem mig vantaði nýja peysu.

Skjaldmey - lopapeysa

Ég þarf auðvitað að stækka uppskriftirnar og nenni sjaldan að gera prjónafestuprufu þannig að ég ákvað að prjóna hana ofan frá og ég segi það sem ég hef oft áður sagt... ég skil ekki að allar peysuuppskriftir séu ekki hannaðar svoleiðis... það er svo þægilegt að geta mátað og séð strax ef eitthvað mætti betur fara... þannig peysan passar alltaf... tja reyndar átti annað eftir að koma í ljós ;)

Fyrir og eftir þvott

Ég prjónaði peysuna og bjóst alveg við að það myndi teygjast á mynstrinu og hún síkka pínu en já hún síkkaði mjög mikið eins og sjá má á þessari mynd sem sýnir peysuna fyrir og eftir þvott.

Nýja lopapeysan

Ég velti þessu fyrir mér og ég var ekki nógu ánægð með hvað ermarnar voru víðar og reyndar síðar... þannig að ég klippti þær af og prjónaði nýjar og hafði þær einni umferð styttri. Einnig ákvað ég að hekla eina umferð með einbandinu meðfram kantinum þar sem mér fannst hann ekki nógu sléttur og tók líka eina umferð meðfram hálsmálinu til að þrengja það pínu og svo setti ég nokkrar pelsakræjur sem sjást ekki til að geta haft hana hneppta... er miklu ánægðari með peysuna svona ;)

Skjaldmey - lopapeysa

Já ég breytti líka aðeins meiru en ég sagði hér að ofan... eða eiginlega öllu nema hugsanlega mynstrinu. Ég vildi hafa peysuna létta og ákvað að nota frekar tvöfaldan plötulopa frekar en Álafosslopa og sé sko ekki eftir því. Ég breytti líka ermunum en þær koma niðurmjókkandi en það hentar mér mun betur en einhverjar útvíðar ermar... ég reyndar hafði þær líka niðurmjókkandi þessar sem ég klippti af en ég gerði bara meiri úrtökur en ég gerði áður.

Skjaldmey - lopapeysa

Garn: Tvöfaldur plötulopi og einband
Prjónar: 6,5 mm
Uppskrift: stuðst við Skjaldmey í Lopa nr. 32

24. september 2017

Ljósmóðurteppið #2

Vá þetta er fyrsta bloggfærsla ársins. Ég hef lítið verið í að föndra á árinu enda komin með nýtt áhugamál sem er búið að eiga hug minn allan... en það er ég sjálf en ég ákvað í byrjun þessa árs að breyta um lífstíl :) Hvað um það þá er ég samt ekkert hætt í handavinnunni heldur bara afkasta ég mun minna en ég hef gert áður.

Mér finnst nauðsynlegt að hafa eitthvað í höndunum þegar ég horfi á sjónvarpið og því ákvað ég að skella í eitt ljósmóðursteppi en ég hafði áður gert eitt slíkt. Ég hafði séð teppi þar sem búið var að þræða silkiborða í slíkt og ákvað ég því að gera eitt slíkt.


Það er ótrúlega fljótlegt að hekla þetta teppi og ætli ég bara endi ekki með lager ef ég finn mér ekki eitthvað annað til að hekla... en það er ótrúlegt hvað silkiborðinn setur mikinn svip á teppið að mér finnst ;)


Kantinn ætlaði ég að gera úr bókinni Around the Corner - Crochet Borders eftir Edie Eckman en hætti svo við að halda áfram þegar ég var búin með fyrstu umferðina því að mér fannst þetta bara vera nóg :)


Garn: King Cole Big Value Baby DK
Heklunál: 4,0 mm
Uppskrift: http://littlemonkeyscrochet.com/call-the-midwife-inspired-baby-blanket-free-pattern/