23. apríl 2013

Bolagarn - garn gert úr stuttermabol

Var að búa til garn úr stuttermabol og ákvað að taka myndir til að leyfa ykkur að sjá hvernig ég geri þetta en ég notaði það þegar ég heklaði hitaplattann úr stuttermabol.

Efni og áhöld:
Lúinn stuttermabolur sem hættur er í notkun (bestir eru bolir sem eru saumalausir í hliðunum), góð skæri til að sníða með.

Bolagarn

Byrjum á því að klippa þvert yfir bolinn undir höndunum og klippa af faldinn neðst.

Bolagarn

Brjótið bolinn svo saman þannig að önnur hliðin er lögð upp að hinni en ekki alveg gott að hafa ca. 2 cm bil. Svo er klippt upp í bolinn þvert með ca. 2,5 cm bili en passið að klippa ekki alveg þvert yfir því að hin hliðin er notuð til að gera þetta að samfeldri lengju.

Bolagarn

Þegar búið er að klippa upp í bolinn þá er best að fletja út óklipptu röndina og klippa skáhalt á milli ræmanna. Þannig fæst löng samfeld ræma.

Bolagarn

Að lokum er farið yfir allt garnið og teygt svolítið á því og þá rúllast það aðeins upp og hægt að vinda það svo upp í hnykil.

Bolagarn

Ef  þið viljið skeyta saman og hafa t.d. garnið úr fleiri bolum eða þurfið að klippa þvottamiða af, þá er klippt smá gat á sitthvorn endann.

Bolagarn
 
Þá er endanum af viðbótinni stungið undir og í gegnum endann á garninu, og svo viðbótargarnið dregið í gegnum gatið á viðbótinni.
 

Bolagarn
 
Svo er togað varlega og þá er búið að skeyta garninu saman.
 

Bolagarn

Gott er að vinda svo garninu upp í hnykil... og þá er ekkert að vanbúnaði að fara að hekla eitthvað úr því.

P.S. Bolurinn er hreinn en það er fast kítti í honum :)

12. apríl 2013

Hekluð snyrtibudda

Heklaði buddu utan um snyrtidótið mitt... rakst á fallega og mjög einfalda uppskrift sem hentar vel byrjendum :)

Hekluð snyrtibudda

Ég reyndar eins og svo oft áður fer ekki alveg 100% eftir þeim en ég gerði hana t.d. bara eins stóra og mig langaði til og svo var hekluður hnappur en ég kom honum nú ekki í gegnum gatið og fann mér því bara sæta tölu í staðinn... miklu flottara :)

Mér fannst garnið afskaplega fallegt og það er blár glitþráður í því... en mér þykir samt afskaplega leiðinlegt að vinna með akrílgarn... það einhvern veginn rispar svo á mér puttana sérstaklega þumlana.

Garn: Kartopu Kar-Sim
Heklunál: 3,5 mm.
Uppskrift: http://www.ravelry.com/patterns/library/perfect-purse

8. apríl 2013

Dalíusjal

Þá er ég búin með fyrsta sjalið úr Knit Picks garninu. Ég var lengi búin að slefa yfir Dahlia Shawl en það er eftir sama hönnuð og gerði uppskriftina af Miðnætursumarsjalinu. Þannig að ég var ekkert í vafa hvað yrði fyrsta sjalið sem ég myndi hekla úr garninu sem ég keypti... eina sem ég átti í erfiðleikum með var að velja litinn. Ég fékk hjálp við litavalið á Facebooksíðunni (endilega líkið við síðuna því að ég set stundum eitthvað skemmtilegt þar inn sem ekki ratar á bloggið) og varð þessi skæri limegræni litur fyrir valinu (verst hvað hann myndast illa).

Dalíusjal - Dahlia Shawl

Hér sést dúlleríið betur

Stórt sjal

Heklað sjal

Ég bað manninn minn þegar hann kom úr vinnunni að taka eina mynd af mér með sjalið til að sýna hversu stórt það er :)

Ein af mér með Dalíusjalið


Ég var frekar fljót að hekla sjalið enda er mynstrið alltaf eins nema eina sem breytist er byrjunin, miðjan og endirinn í hverri umferð :) Ég lenti í engum erfiðleikum með uppskriftina en ég las hana ansi lítið enda þykir mér best að hekla bara eftir teikningum sé það í boði. Ég gerði mitt heldur stærra en segir í uppskriftinni.

Það var svolítið puð að strekkja sjalið og það er algjört möst að eiga nóg af títuprjónum því að nóg er af dúllerí sem maður þarf að títa niður.

Garn: Knit Picks Shadow Tonal
Heklunál: 4,0 mm.
Uppskrift: Dahlia Shawl