Þetta eru kannski ekki merkilegir hlutir í augum margra og kannski átta margir sig ekki á því að þetta er kannski búið að kosta mig marga daga vinnu. Ég er t.d. langt komin með að hanna nýtt snjókorn þannig að ég get tekið það sem dæmi hvernig ég vinn þetta.
- Hugmynd: fyrst af öllu fær maður auðvitað einhverja hugmynd og gerjast með hana í kollinum í smá tíma og fer að rissa svo snjókornið niður á blað.
- Frumhönnun: næst fer maður að hekla og þá oft breytist krotið því að sumt er bara ekki hægt að framkvæma auðveldlega. Maður prófar hitt og þetta og krotar einhverja grófa lýsingu niður á blað.
- Frágangur: þegar snjókornið er tilbúið þá þarf að stífa það.
- Endurhönnun: þegar maður er búinn að stífa snjókornið þá sér maður að kannski hefði maður átt að gera eitthvað annað og fer í að hekla nýtt snjókorn og krotar niður lýsinguna.
- Vinnsla: svo stífar maður það og ef maður er sáttur þá fer maður og skrifar niður uppskriftina.
- Prófanir: ég reyni að kappkosta við að hafa uppskriftina rétta þannig að þegar ég er búin að skrifa hana niður þá hekla ég eftir henni og oft þarf að gera leiðréttingar.
- Lokavinnsla: þegar uppskriftin er klár þá þarf að taka myndir og vinna þær og þá loksins er hægt að setja uppskriftina inn á bloggið.
- Þýðing: til að sem flestir hafi getað notið þá hef ég þýtt uppskriftirnar mínar á ensku. Það lengir ferlið því að fyrst þýði ég og svo hekla ég eftir þýðingunni.
- Eftirfylgni: þegar búið er að birta uppskriftina þá er mjög oft haft samband við mig varðandi hitt og þetta. Sumir einfaldlega eru kannski ekki sleipir í að hekla eða lesa uppskriftir og hafa samband :)
Mér hefur fundist þetta bara gaman og sjálfsagt að gefa af mér... og orðið pínu montin þegar ég sé að einhver er að gera eins... EN ég er kannski frekar pirruð núna en mér finnst ég vera í endalausum barningi við fólk á netinu við að verja það sem ég hef skapað. Það er eins og fólki finnist sjálfsagt að það geti gert hvað sem er við það sem er birt ókeypis á netinu.
Ég merki myndirnar mínar vandlega með blogginu og set inn klausu um höfundarréttinn þ.e. að það megi ekki afrita uppskriftina á neinn máta inn í uppskriftina. Þrátt fyrir þetta þá verð ég vör við að myndum mínum er deilt hingað og þangað um netið á hinum ýmsum síður þar sem búið er að hafa fyrir því að kroppa merkinguna mína af þeim. Það að það fylgi í smáu letri undir með vísun eða hlekk í bloggið mitt gefur ekki fólki rétt til að taka myndirnar mínar og breyta þeim að vild. Mér finnst að það ætti að vera sjálfsögð kurteisti þegar verið er að nota myndirnar mínar að hafa þá þær með merkingunni minni með.
Einnig hef ég verið að eyða tíma mínum við að þýða uppskriftirnar á ensku svo að fleiri geti notið... því miður tel ég mig ekki færa til að skrifa uppskriftirnar á fleiri tungumálum. Það að uppskriftir mínar séu ekki til á fleiri tungumálum gefur fólki ekki rétt á að þýða þær og birta á bloggunum sínum eða jafnvel inn á Ravelry eins og ég hef rekið mig á. Ef ég myndi lesa bók á ensku og hún væri ekki til á íslensku þá myndi ég ekki hafa leyfi á að þýða hana og birta hana bara á blogginu mínu. Ég sé ekki hvernig fólk getur fundist þetta vera eitthvað öðruvísi.
Það eina sem ég get gert þegar ég rekst á eitthvað svona er að biðja fólk um að eyða þessu hjá sér eða skipta út myndunum og ég er bara upp á samvisku hvers og eins komin... oft er þetta lagfært en stundum er mér bara einfaldlega ekki svarað.
Mér hefur fundist hingað til ekkert mál að deila með öðrum og væri bara ekki frábært ef allt í heiminum væri ókeypis. Nú eru örugglega margir sem spyrja afhverju er mér ekki bara sama? Þá spyr ég bara á móti afhverju á mér að vera sama? Á mér að vera sama að aðrir eignir sér heiðurinn... að fólk fái meiri umferð á síðuna hjá sér fyrir vikið sem gefur þeim auglýsingatekjur?
Æji mér finnst þetta bara vera glatað... ég var langt komin með að gera nýja snjókornauppskrift sem ég ætlaði að sjálfsögðu að birta en núna finnst mér þetta bara allt eitthvað svo tilgangslaust þegar maður er að berjast við vindmyllur... vildi bara að fólk væri ekki að stela og gæfi mér bara smá kredit fyrir vinnuna mína sem ég hef lagt í þetta ;)