21. september 2019

Annað heklað vintage teppi



Munið þið eftir heklaða vintage teppinu sem ég kláraði í byrjun árs 2013? Það var heklað úr einföldum plötulopa og úr mörgum litum sem var raðað af handahófi. Það var svo gaman að hekla það að ég byrjaði á öðru í júlí sama ár en nú úr tvöföldum plötulopa og ég ætlaði að nota það í hjólhýsinu sem ég átti... en þar var litaþemað appelsínugult :)


Ég var rosalega dugleg að hekla í útilegunum og kláraði það næstum því... nema að ég gat ekki ákveðið hvernig kant ég vildi hafa á því. Svo dagaði það bara uppi eins oft vill verða.


Svo var mamma að segja mér að ömmu minni vantaði ullarteppi og þá mundi ég eftir teppinu og bara heklaði kant á það þvoði það og gaf henni það en nú á ég nýtt hjólhýsi sem er ekki með neinu appelsínugulu í... verð bara að hekla annað fyrir það! 😄


Ég mældi það ekki en það er risastórt enda hafði ég hugsað mér að það væri hægt að nota það sem rúmteppi í hjólhýsinu... fallegt teppi sem bara passar ekki í litaþemað heima hjá mér og bara æðislegt ef amma mín getur notað það til að ylja sér 💖

Ég hlakka bara til að fara að hekla annað og ætla ekki að láta það taka meira en 6 ár að klára!

Garn: tvöfaldur plötulopi
Heklunál: 8,0 mm
Uppskrift: engin en þið getið lesið um hvað er í líkingu við það á hinu teppinu.

18. september 2019

Riddari lopapeysa - prjónuð ofan frá

Riddari lopapeysa

Ég gat varla beðið eftir að klára peysuna mína til að prjóna peysu á eiginmanninn... ég lenti í smá vandræðum í byrjun en ég skyldi ekki hvað hún ætlaði að verða eitthvað lítil og maðurinn minn ætlaði varla að koma hausnum í gegn... þar til ég mældi prjónana 😶

Mjög gaman að prjóna þessa og fannst mér hún miklu flottari en mín peysa... afhverju valdi ég mér ekki þetta mynstur? 😋 Mun vonandi prjóna þessa aftur einhvern tímann.

Lopapeysa prjónuð ofan frá

Ég prjónaði hana líka ofan frá eins og ég mun sennilega alltaf gera þegar ég prjóna lopapeysur... eina rétta leiðin eins og ég sagði í póstinum í gær 😉 Ég er mjög ánægð með hana en rúllukanturinn var smá vesen þar sem ég opnaði peysuna en kom bara nokkuð vel út þó að ég segi sjálf frá... hefði mátt gera einni umferð til viðbótar í hálsmálinu út af uppfitinu.

Garn: Ístex léttlopi
Prjónar: 3,5 og 4,5 mm
Heklunál: 4,0 mm
Uppskrift: Riddari úr Lopi 28

17. september 2019

Hlekkur lopapeysa - prjónuð ofan frá

Hlekkur lopapeysa

Ég er ódugleg að skella inn póstum hingað inn á bloggið... en er aðeins duglegri að skella myndum inn á Facebook síðuna. Nú er ég loksins sest fyrir framan tölvuna og get farið að blogga en ég kláraði peysuna 1. júlí sl. 😆

Þar sem ég nenni ekki að gera prjónafestuprufur og prjóna svo laust að þá finnst mér best að prjóna þær ofan frá svo að það sé hægt að máta þær eins og manni hentar til að sjá strax hvort að þær komi til með að passa. Þegar ég prjóna ofan frá þá í rauninni nota ég bara uppskriftina í blaðinu en les þær eðilega öfugar þannig að ég byrja á hálsmálinu og eyk þá út í mynstrinu í staðinn fyrir úrtöku. Mér finnst þessi aðferð vera sú eina rétta og svo þarf maður ekkert að lykkja saman undir höndunum 😉

Prjónuð ofan frá

Eins og sést á myndinni þá var ég að prjóna upp úr peysukjól sem ég ætlaði að prjóna á mig fyrir nokkrum árum síðan og hann varð alltof víður á mig þegar ég byrjaði á mynstrinu og ég henti þessu frá mér... nú er ég að reyna að nýta það sem maður á og minnka í leiðinni draslið í skápunum 😉

Sumarið var yndislegt og gat ég því verið í útilegum að prjóna... og máta peysuna jafnóðum. Ég jók smá út í hliðunum þannig að peysan fékk smá A-snið en það snið hentar mér betur en beinar peysur. Þar sem sumarið var svo gott að þá ákvað ég strax og ég var búin með þessa peysu að skella í Riddara á eiginmanninn.

Gott að geta mátað

Ég er alveg ánægð með peysuna en samt finnst mér mynstrið vera full stórt og ég var alls ekki hrifin af hálsmálinu og það endaði með því að ég heklaði eina umferð meðfram því með svörtu. Svo hefði ég viljað hafa meiri mun á milli gráu litanna en ég hafði átt ljós gráan en mér fannst hann falla svo inn í hvíta litinn og mynstrið varð ekki nógu skýrt.

Garn: Ístex léttlopi
Prjónar: 3,5 og 4,5 mm
Heklunál: 4,0 mm
Uppskrift: Hlekkur úr Lopi 28

17. mars 2019

Hekluð gardína

Ég átti víst alltaf eftir að blogga um eldhúsgardínuna mína sem tók nokkur ár að hekla reyndar með löngum hléum... en ég var reyndar búin að pósta mynd á Facebook síðunni í nóvember 😉

Hekluð gardína

Ég flutti fyrir 5 árum og var staðráðin í að hekla mér eldhúsgardínu og hafði verið búin að kaupa gardínublað einhverju áður og hófst handa reyndar tæpu ári eftir að ég flutti eða í janúar 2015 (sé það inni á Ravelry sem er snilld til að halda utan um alla hluti).

Hekluð eldhúsgardína í vinnslu

Þar sem mér leiðist afskaplega að vera endalaust að gera það sama þá kastaði ég þessu verkefni ansi oft frá mér og að lokum bara gleymdist það inni í skáp. Ég rakst svo á þetta aftur í október í fyrra og fletti upp hvenær ég hefði byrjað á því og þá ákvað ég að nú væri kominn tími á að klára og láta ekki enn fleiri ár líða 😂 Ég sá að það var mjög lítið eftir þannig að ég sat stíft við til að klára og upp skyldu gardínunar fyrir jól... það gerðist en ég reyndar uppskar geðveika vöðvabólgu í kjölfarið 😏

Kafégardin med spindler

Hekluð gardína í strekkingu

Það var pínu mál að strekkja gardínuna þar sem hún er svo löng en ekkert mál með góðum græjum 😁 Ég keypti þessa mottu á bland.is á sínum tíma og strekkivírana í Handprjón og hef sko notað þá mikið. Eina sem ég áttaði mig ekki á var hve gardínan lengdist mikið við strekkingu en ég gerði alveg ráð fyrir smá en þetta var mun meira en ég bjóst við svo að þá varð bara smá rykking/fellingar á gardínunni í glugganum.

Garn: Solberg Garn 12/4 Mercerisert
Heklunál: 1,75 mm
Uppskrift: Kafégardin med spindler úr Solberg hefte nr. 48

16. mars 2019

Undurfagurt ungbarnateppi #2

Ég heklaði þetta teppi fyrir nokkuð löngu síðan en átti alltaf eftir að þvo það og strekkja. Ég var að bíða eftir að lítill strákur myndi fæðast í kringum mig en mér þykir mjög gott að eiga ungbarnateppi á lager svo að maður sé ekkert í stressi að hekla 😃

Mayflower baby blanket

Mayflower baby blanket

Mayflower baby blanket

Mayflower baby blanket

Ég fékk loksins tækifæri til að hitta litla manninn í dag og því get ég loksins bloggað um þetta... en ég sé að það er komið meira en ár síðan ég bloggaði síðast... svo að ég get líka óskað ykkur gleðilegs árs 😜

Þetta er í annað sinn sem ég hekla þetta teppi en þið getið skoðað það fyrra hér. Mér finnst þetta enn vera fallegasta ungbarnateppið en ég á alltaf í smá vandræðum með kantinn... mynstrið er smá snúið í upphafi en svo þegar maður fattar það þá er þetta ekkert mál 😉

Garn: King Cole Cottonsoft
Heklunál: 5,5 mm
Uppskrift: http://www.ravelry.com/patterns/library/mayflower-baby-blanket