7. mars 2018

Ullarsokkar og vettlingar í stíl

 Ullarsokkar og vettlingar í stíl

Ég held áfram að prjóna úr öllum þessum plötulopa sem ég á... systir mín óskaði eftir ullarsokkum handa sex ára frænda mínum og ég gerði það með glöðu geði og ákvað svo að prjóna vettlinga í stíl :)

Yrjóttir lopasokkar

Ég held að mér finnist skemmtilegra að prjóna ullarsokka en vettlinga amk skiptir engu máli á hvorn fótinn sokkurinn passar en ég lenti í því að ég er búin að prjóna tvo hægri handarvettlinga og nenni ekki að prjóna tvo vinstri handar til viðbótar *andvarp*

Yrjóttir barnasokkar í fimm stærðum

Mér fannst þeir koma skemmtilega út þ.e.a.s. að hafa þá svona yrjótta en ég notaði plötulopa í þremur brúntóna litum. Þannig að mér fannst frændi þyrfti að eiga hlýja vettlinga í stíl við ullarsokkana :)

Yrjóttir lopavettlingar

Ég fann strax aðra uppskrift úr vettlingabókinni góðu... en ég verð nú samt kannski að fara að skoða fleiri uppskriftir og kannski að prjóna einhverja þar sem skiptir ekki máli á hvora höndina þeir eru ;)

Vettlingar fyrir 4-10 ára úr þreföldum plötulopa

Þeir komu ágætlega út og ég auðvitað passaði mig sérstaklega á því að gera vinstri handar vettling ;) Svo passa þeir betur á frænda minn heldur en þessir röndóttu sem voru úr tvöföldum plötulopa og svo eru þeir pottþétt hlýrri.

Sokkar: 
Garn: þrefaldur plötulopi í þremur brúnum tónum
Prjónar: 5,5 mm.
Uppskrift: Yrjóttir barnasokkar í fimm stærðum úr bókinni Sokkar og fleira

Vettlingar:
Garn: þrefaldur plötulopi í þremur brúnum tónum
Prjónar: 4,5 og 6,0 mm.
Uppskrift: Vettlingar fyrir 4-10 ára úr þreföldum plötulopa úr bókinni Vettlingar og fleira

2. mars 2018

Röndóttir vettlingar handa frænda


Sex ára frændi minn kom í heimsókn til mín um síðustu helgi og pantaði hjá mér vettlinga og þeir áttu að vera röndóttir bláir og svartir... og auðvitað prjónaði frænka svoleiðis vettlinga handa honum :)


Ég notaði uppskrift sem heitir Fluguvettlingar fyrir 4-10 ára en breytti aðeins því að ég notaði tvöfaldan plötulopa og gerði því stærstu stærðina... þeir smellpössuðu en hefðu mátt kannski vera örlítið stærri ef eitthvað er... þannig að ætli ég prjóni ekki fleiri vettlinga handa honum og svo pantaði systir mín ullarsokka á hann... þannig að ég sé alveg fram á smá dund á næstunni :)


Garn: tvöfaldur plötulopi
Prjónar: 4,0 mm og 5,0 mm
Uppskrift: Fluguvettlingar fyrir 4-10 ára við bókina Vettlingar og fleira

18. febrúar 2018

Lopavettlingar úr tvöföldum plötulopa

Lopavettlingar úr tvöföldum plötulopa

Það er svo gaman að prjóna úr lopa... þrátt fyrir að allt heimilið verði loðið og mig klæi í nefið ;) Ég á svo mikið af lopa að ég ætla að dunda mér við að prjóna fullt af vettlingum úr afgöngunum enda veitir ekki af að eiga góða og hlýja lopavettlinga í þessari veðráttu :)

Þessir eru úr bókinni Vettlingar og fleira eftir Kristínu Harðardóttur en ég er búin að eiga þessa bók í mörg ár en ég man ekki hvort að ég hafi nokkuð prjónað úr henni áður... fínasta uppskrift og mun vonandi prjóna fleiri vettlinga úr bókinni svo að það grynnki aðeins í garnhrúgunni minni ;)

Garn: tvöfaldur plötulopi
Prjónar: 4,0 mm og 5,0 mm
Uppskrift: Nokkrir mynstraðir vettlingar úr tvöföldum plötulopa úr bókinni Vettlingar og fleira

11. febrúar 2018

Skjaldmey - lopapeysa

Ég prjónaði fyrir nokkrum árum síðan lopapeysu á mig úr tvöföldum lopa sem ég hef notað mikið... svo mikið að það eru komin göt á hana og því varð ég að prjóna mér nýja. Mig hafði lengi langað til að gera Skjaldmey eða alveg síðan Lopablaðið kom út og ég sá hana í blaðinu... en aldrei gefið mér tíma í að prjóna eina slíka. En nú var auðvitað kjörið að nýta tækifærið þar sem mig vantaði nýja peysu.

Skjaldmey - lopapeysa

Ég þarf auðvitað að stækka uppskriftirnar og nenni sjaldan að gera prjónafestuprufu þannig að ég ákvað að prjóna hana ofan frá og ég segi það sem ég hef oft áður sagt... ég skil ekki að allar peysuuppskriftir séu ekki hannaðar svoleiðis... það er svo þægilegt að geta mátað og séð strax ef eitthvað mætti betur fara... þannig peysan passar alltaf... tja reyndar átti annað eftir að koma í ljós ;)

Fyrir og eftir þvott

Ég prjónaði peysuna og bjóst alveg við að það myndi teygjast á mynstrinu og hún síkka pínu en já hún síkkaði mjög mikið eins og sjá má á þessari mynd sem sýnir peysuna fyrir og eftir þvott.

Nýja lopapeysan

Ég velti þessu fyrir mér og ég var ekki nógu ánægð með hvað ermarnar voru víðar og reyndar síðar... þannig að ég klippti þær af og prjónaði nýjar og hafði þær einni umferð styttri. Einnig ákvað ég að hekla eina umferð með einbandinu meðfram kantinum þar sem mér fannst hann ekki nógu sléttur og tók líka eina umferð meðfram hálsmálinu til að þrengja það pínu og svo setti ég nokkrar pelsakræjur sem sjást ekki til að geta haft hana hneppta... er miklu ánægðari með peysuna svona ;)

Skjaldmey - lopapeysa

Já ég breytti líka aðeins meiru en ég sagði hér að ofan... eða eiginlega öllu nema hugsanlega mynstrinu. Ég vildi hafa peysuna létta og ákvað að nota frekar tvöfaldan plötulopa frekar en Álafosslopa og sé sko ekki eftir því. Ég breytti líka ermunum en þær koma niðurmjókkandi en það hentar mér mun betur en einhverjar útvíðar ermar... ég reyndar hafði þær líka niðurmjókkandi þessar sem ég klippti af en ég gerði bara meiri úrtökur en ég gerði áður.

Skjaldmey - lopapeysa

Garn: Tvöfaldur plötulopi og einband
Prjónar: 6,5 mm
Uppskrift: stuðst við Skjaldmey í Lopa nr. 32