21. desember 2011

Hekluð dúkkuföt á Baby born

Loksins kemur eitthvað nýtt frá mér. Ég er sem sagt búin í prófunum... reyndar fyrir nokkru síðan og búin að sitja svolítið stíft við með prjónana og heklunálina :) Ég er búin að sakna þess svolítið mikið... ég er í jólafríi til 9. janúar og þið vitið þá hvað ég mun gera við tímann :)

Frænka mín bað mig að búa til handa sér dúkkuföt í afmælisgjöf en hún átti afmæli í nóvember... mér fannst agalega leitt að hafa ekki orðið við bón hennar... þannig að hún fær m.a. dúkkuföt frá mér í jólagjöf... fjólublár er uppáhaldsliturinn hennar og ég vona að hún verði ánægð með gjöfina :)

Ég heklaði peysu og húfu úr stíl og er uppskriftin af því úr Prjónablaðinu Ýr... það voru buxur líka í settinu og skór... ég heklaði skóna en fannst þeir passa mjög illa þannig að þeir voru ekki nothæfir. Ég ætlaði að hekla buxurnar en ákvað svo að sleppa því þar sem ég held að frænka mín væri hrifnari af kjól :)


Þannig að ég heklaði bara upp úr mér kjól og skó sem pössuðu vel á dúkkuna og svo hárband við :)




Peysa og húfa:
Garn: Sandnes Garn Lanett
Heklunál: 2,5 mm
Uppskrift: Prjónablaðið Ýr nr. 43

Kjóll, skór og hárband:
Garn: Sandnes Garn Mandarin Petit
Heklunál:  3,0 mm
Uppskrift: engin

4. september 2011

Enginn tími til hannyrða

Ég skellti mér í nám og mér sýnist ég ekki hafa nánast neinn tíma til að prjóna... prjóna samt yfirleitt þegar ég er að horfa á sjónvarpið (nema þegar þættirnir eru á dönsku) en ég er bara í svolítið stóru verkefni... er að prjóna á mig úr léttlopa og á prjóna 4,5 sem er svolítið smátt fyrr minn smekk... þannig að miðað við hvað ég get prjónað lítið í einu þá á ég eftir að vera marga mánuði að þessu :)

Þrátt fyrir að ég sakni þess svolítið að prjóna þá er það nú kannski líka af því að ég er að gefa mér svakalegan tíma í námið þar sem mér finnst eitthvað svo svakalega gaman að læra (vonandi helst það allt námið)... þannig að ég býst ekki við að skella neinu hérna inn á næstunni... ég er nú samt hvað á hverju að eignast lítinn frænda sem ég væri sko á fullu að prjóna á ef ég hefði ekki skellt mér í nám... en hvað um það... ég prjóna bara eitthvað á hann næsta sumar :)

10. ágúst 2011

Heklað utan um stóra krukku

Mér áskotnaðist fyrir nokkrum árum nokkrar risastórar krukkur sem ég hafði notað undir kerti en ákvað núna að hekla utan um eina til að skreyta fyrir utan hjá mér í tilefni þess að ég bý í bleika hverfinu á bæjarhátíð þar sem ég bý. Mér fannst þetta bara lukkast nokkuð vel en fannst ég verða að prufa að hekla líka utan um lokið svo að krukkan gæti staðið úti alltaf og myndi ekki fyllast af vatni... þannig að ég skelli bara lokinu á þegar ég er ekki að nota hana. Ég var nú samt í vandræðum með lokið þar sem ég sá nú fram á að þetta myndi fjúka af í næsta roki þannig að ég setti teppalím ofan á og smá á hliðina og vonandi dugar það til :)

Annar er ég svo svakalega symmetrísk að ég verð að hekla mér aðra :)






Garn: Sandnes Garn Mandarin Petit
Heklunál: 3,5 mm
Uppskrift: engin - er bara upp úr mér

27. júlí 2011

Strákavesti handa Eyþóri

Ég er ekkert hætt að blogga... er bara búin að vera að ferðast og vinna í pallinum heima þannig að maður hefur því miður minni tíma til að vera að prjóna eða hekla... en svona er þetta... en ég er samt alltaf eitthvað aðeins að gera :) Svo er ég að fara í nám í haust þannig að ég óttast að afköstin í hannyrðunum muni eitthvað verða minni en hér áður :)

En hér er eitt sem ég er búin að prjóna en það fer í afmælispakkann handa Eyþóri frænda mínum :)



Garn: Sandnes Garn Smart
Prjónar: 3,5 mm
Uppskrift: Prjónablaðið Ýr nr. 42

28. júní 2011

Skorradalssjal

Var í útilegu í Skorradalnum og prjónaði mér sjal... elska að prjóna eða hekla í útilegum :) Þetta er fyrsta sjalið sem ég geri eftir útlenskri uppskrift (hafði nú reyndar byrjað á Haruni sjali en ég er í fýlu út í garnið... þarf samt að fara að klára það) en þetta sjal er mjög einfalt og mjög gott til að byrja á :)

Garnið sem ég notaði var sokkagarn sem ég keypti í London í maí... elska litinn en ég keypti nú tvær dokkur af þessu en það fór rétt tæp ein dokka (100 g) af garninu í sjalið... kannski maður prjóni sér sokka í stíl hahaha




Prjónar: 4,0 mm
Uppskrift: http://www.ravelry.com/patterns/library/holden-shawlette

15. júní 2011

Lopahúfa og vettlingar með áttblaðarósinni

Ég átti svo mikinn afgang af lopa eftir að ég prjónaði lopapeysuna Valdísi að ég mátti til með að skella í húfu og vettlinga... enda sumarið búið að vera fremur svalt að undanförnu... þetta á eftir að koma sér þrusuvel í útilegunum í sumar :) Reyndar hefði ég viljað setja stjörnuna úr mynstrinu af Valdísi á vettlingana en þá hefðu þeir verið of stórir :) En litirnir passa við svo að þetta gengur vel við peysuna :)





Garn: Tvöfaldur plötulopi
Prjónar: vettlingar: 4,0 mm og 5,0 mm - húfa: 5,5 mm.
Uppskrift: Fleiri prjónaperlur

9. júní 2011

Fljúga hvítu fiðrildin...

... fannst vera kominn tími á að taka niður hekluðu snjókornin sem hanga í stofuglugganum... kannski kemur þá sumarið þegar þau fara niður og þessi hvítu fiðrildi fá að sveima fyrir innan gluggann :)




Garn:  Sandnes Garn Mandarin Petit
Heklunál: 3,0 mm og 2,5 mm
Uppskrift: http://www.ravelry.com/patterns/library/clouded-yellow-butterfly

25. maí 2011

Lopapeysan Valdís

Var að klára að prjóna þessa lopapeysu handa mér... og mér finnst hún svakalega flott :) Eini gallinn er að hún er prjónuð venjulega og urðu ermarnar 10 cm of langar og þar af leiðandi varð peysan líka 10 cm síðari en ég gerði ráð fyrir... þarf því að stytta ermarnar og peysan nær mér næstum niður að hnjám... þannig að þetta er svona lopapeysukápa :) Þetta hefði aldrei gerst ef peysan hefði verið prjónuð ofan frá því að þá getur maður svo auðveldlega mátað hana ;)

Flott peysa

 Finnst mynsturbekkurinn svo fallegur

Skellti einni með af henni nýþveginni þar sem sniðið á henni sést vel

Garn: Tvöfaldur plötulopi
Prjónar: 5,5 mm og 6,0 mm
Heklunál: 5,0 mm
Uppskrift: Prjónakistan 

18. maí 2011

Verslað í London

Skrapp á tónleika í London og kíkti auðvitað í leikhús og í búðir í leiðinni :) Aldrei þessu vant þá fór ég inn í allar bókarbúðir sem ég fann og leitaði líka að föndurbúðum... verslaði svolítið en hefði alveg verið til í að kaupa allan heiminn :)


Ég ákvað að skella inn einni færslu þar sem ég fann nú ekki mikið þegar ég var að googla prjónabúðir og föndurbúðir í London.

All the Fun of the Fair er pínkuponsu búð sem selur garn og smáhluti og er nálægt Regent Street við Oxford Street. Ég ætlaði aldrei að finna búðina... en næsta gata á bakvið Hamley´s við Regent Street heitir Kingly Street en búðin stendur við Kingly Court sem er eiginlega á bak við Kingly Street.... maður kemur inn í svona port með veitingahúsum og búðum og svo eru svalir með búðum og búðin er uppi á þriðju hæð :)

John Lewis á Oxford Street selur fullt fullt af garni, prjónum, tölum, perlum, tvinna og ég veit ekki hvað og hvað :)

Loops í Islington sýndist mér vera lítil búð... ég tók metróið þangað en kom að luktum dyrum... búðin er lokuð á mánudögum *sniffsniff*... mun pottþétt kíkja þangað þegar ég fer næst til Lundúna. Lestarstöðin heitir Angel og tilheyrir Northern line (svarta leiðin).

Þetta er það sem ég fann af föndurbúðum í þessari ferð minni til Lundúna... ef einhver veit um fleiri sem eru í hjarta Lundúna þá megið þið endilega láta mig vita :)

11. maí 2011

Ungbarnahúfa úr silki

Prjónaði þessa hjálmhúfu úr Maharaja silkigarni en ég fékk uppskriftina með garninu. Ég er svo vön að vera að prjóna úr grófu að mér fannst ég vera að prjóna með títuprjónum :) Garnið var svakalega fallegt en lét rosalega mikinn lit þegar ég þvoði húfuna. Ætla að prjóna aðra og prófa að skola úr henni úr köldu vatni... fannst þessi litur nefnilega svo djúpur og fallegur fyrir þvott... ekki það að mér finnist hún ekki falleg núna eftir þvott... bara hefði verið enn fallegri :) Ég er samt ekki frá því að áferðin hafi líka breyst en hún var svo svakalega glansandi fyrir þvott :(


Garn: Maharaja silkigarn
Prjónar: 2,0 mm og 2,5 mm
Uppskrift: fylgdi með kaupum á garninu (Bót.is)

30. apríl 2011

Krókódílasjalið mitt

Þá er ég loksins búin að krókódílahekla sjalið. Ég er auðvitað búin að vera að gera fullt annað og grípa í þetta svona annað slagið en það er auðvitað bara ekki hægt að gera einn hlut í einu ;)

Ég er mjög ánægð með það og finnst garnið koma einstaklega vel út :) Finnst sjalið svakalega flott á röngunni líka :)





Leiðbeiningar um krókódílaheklið má finna hér:
 http://fondrari.blogspot.com/2011/03/krokodilahekl-leibeiningar-i-myndum_27.html
Garn: Hjertegarn Kunstgarn
Heklunál: 5,0 mm
Uppskrift: http://yarn-muse.blogspot.com/2011/01/crocodile-stitch.html

28. apríl 2011

Prjónamerki til sölu

Það er svo gaman að föndra :) Var að dunda mér að gera prjónamerki í kvöld... ætla að selja þau á 500 kr. (4 stk).

Sendið mér tölvupóst ef þið hafið áhuga: fondrari@gmail.com



Prjónamerkin í umbúðum

Bleik 

Græn

Fjólublá

25. apríl 2011

Lopapeysa handa mér :)

Þá er loksins peysan mín tilbúin en ég fékk leið á henni í smá tíma þegar ég þurfti að rekja ermina upp til að gera fleiri úrtökur. Ég fór svo í sumarbústað um páskana og það var auðvitað prjónað og prjónað. Ég varð ég að klára hana þar sem ég var komin með lopa í aðra peysu á mig... kemur í ljós hvenær ég klára hana en ég er amk búin með búkinn og er byrjuð á ermunum ;)




Lopapeysan er prjónuð frá hálsi og niður. Prófaði aðeins að breyta í útaukningunni þar sem efsti zikkzakk kanturinn var á ská í Aþenu peysu en er núna beinn. Ég gerði það með því að auka tvisvar út sitt hvoru megin við toppinn.

Garn: Tvöfaldur plötulopi, pallíettuglimmerþráður og silfurlitaður kortaþráður
Prjónar: 5,5 og 6,5 mm,
Heklunál: 5,5 mm.
Uppskrift: http://www.istex.is/Files/Skra_0037638.pdf

18. apríl 2011

Gleðilega páska

Þá er ég búin að föndra páskaungana... þeir eru nálarþæfðir og auðvitað verða smáslys... maður stingur sig nokkrum sinnum og svo náði ég enn einu sinni að brjóta nálina... ég veit ekki hvort að þetta gerist oft hjá öðrum... en þetta er amk í annað sinn sem ég brýt þæfingarnál :) Þannig að ekki urðu þeir fleiri en tveir að sinni :)

Vonandi hafið þið það gott um páskana... ég ætla amk að hafa það mjög gott og prjóna og hekla alla páskana... mmmm ekki slæmt :)


Efni: Kemba
Uppskrift: Spennandi þæfing

17. apríl 2011

Föndrað páskaskraut

Það eru alveg að koma páskar :)


Þar sem ég er með saumaklúbb á þriðjudaginn þá ákvað ég að skreyta smá fyrir stelpurnar þó að páskarnir séu nú ekki komnir. Ég smellti því nokkrum myndum af páskaskrautinu mínu .

Eggin gerði ég árið 2004. Stakk á þau göt og blés úr þeim, málaði svo og skreytti. Hef nú ekki nennt þessu aftur en maður fékk alveg nóg af því að blása úr þeim... en ég held að ég hafi bara föndrað yfir mig af þeim en ég gerði fleiri því að ég gaf tengdamömmu og svo tengdaömmu líka :)





Svo koma nokkrar myndir af skrauti sem amma mín bjó til fyrir mörgum árum síðan... elska skrautið hennar en ég fékk föndurgenið frá henni :) Bíðið bara þangað til að jólin koma og ég get sýnt ykkur myndir af jólaföndrinu hennar :)






Ég er nú að föndra smá núna en ég er að þæfa páskaunga... smelli myndum síðar af því þegar ég er búin með þá :) Svo gerði ég líka páskaspöng einu sinni en þið getið séð myndir af henni hér. 

16. apríl 2011

Litagleði - fleiri krukkur

Prófaði að hekla úr einbandi þar sem mér finnst litirnir vera svo fallegir... kemur ágætlega út þó að mér finnist samt bómullargarnið verða áferðarfallegra :)  Mun klárlega fara með nokkrar heklaðar krukkur í fellihýsið og nota þegar dimma fer í sumar :)

13. apríl 2011

Hekluð krukka - taka tvö :)

Ég var ekki lengur alveg sátt við hinar krukkurnar mínar... bæði fannst mér toppurinn vera svo víður og svo voru þær hvítar og mér fannst það bara eitthvað svo svakalega hvítt í dagsbirtu :)  Ég á nú orðið svolítið mikið af krukkum þannig að ég gerði aðra tilraun og ég datt niður á þessa lausn... og ég er líka ekkert smá ánægð með hana... finnst hún svo svakalega sæt og rómó :)

Aðalbreytingin er sú að kanturinn er nettari en ég gerði 5 x hálfstuðla og svo er auðvitað snúran sem strekkir að og puntar helling :) Mig langar að gera úr fínna garni en samt er ég á báðum áttum þar sem ég er svo svakalega hrifin af grófu... langar líka til að prófa að gera úr einbandi... sjáum til hvað verður úr :) Annars er ég að spá í að taka þessa með mér í búðina sem ég er að vinna í núna svo að aðrir geti séð hana :)



Garn: Mandarin Petit
Heklunál: 3,5 mm.

7. apríl 2011

Hekluð ungbarnapeysa og húfa í stíl

Það var lítill sætur prins sem fékk þetta í gær... svo að ég get loksins sett myndir af þessu hérna inn :)


Uppskriftin er úr Prjónablaðinu Ýr nr. 39 en þar var hún úr mun fínna garni. Mig langaði til að hekla úr kambgarninu þar sem ég hef aldrei gert neitt úr því áður og fannst þetta svo æðislega mjúkt garn. Ég þurfti því að aðlaga uppskriftina og úr því varð alltof stór peysa en hún hefði passað á 1-2 ára... og mér fannst það ómögulegt að setja svona stóran strák í svona dúllerí :) Þannig að ég rakti bara þá peysu upp... en mitt mottó er nú bara að ef ég er ekki ánægð þá rek ég bara upp ;)


Húfan er upp úr mér en peysan átti að vera með hettu og ég var ekki alveg að fíla það þannig að úr því varð að ég gerði bara húfu við peysuna... mér finnst notagildið vera mun meira þannig. Húfan er bara upp úr mér en er nú einföld eins og flestar heklaðar húfur og svo gerði ég bara kant á í stíl við peysuna :)


Hekluðu tölurnar mínar voru á þessa peysu en ég var í vandræðum með að finna tölur sem mér fannst tóna vel við peysuna... og úr því varð að ég prófaði að hekla utan um þær... og mér finnst þær æði :)

Á alveg örugglega eftir að gera einhvern tímann aftur svona peysu :)

Garn: Ístex Kambgarn
Heklunál: 4,0 mm
Uppskrift: Prjónablaðið Ýr nr. 39 (aðlöguð og breytt hjá mér og húfan upp úr mér)