31. janúar 2011

Hekluð skjaldbaka - nálapúði

Mig hefur lengi langað til að hekla handa mér nálapúða. Hef skoðað svolítið á netinu eins og svo oft áður.. sá t.d. tebolla og fullt af cupcakes... en var ekki alveg heilluð... en svo rakst ég á skjaldbökuna á Ravelry...  það var næstum ást við fyrstu sýn :) Eins og svo oft áður þá bara varð ég að skella í eina... mér fannst skelin svo tómleg að ég skreytti hana aðeins... og auðvitað finnst mér mín skjaldbaka langsætust :)




Garn: Trysil Garn Sportsgarn
Heklunál: 4,0
Uppskrift: http://www.ravelry.com/patterns/library/tiny-turtle-3

29. janúar 2011

Hekluð húfa, sokkar og smekkur

Ég gaf þetta í sængurgjöf síðasta sumar. Ég gerði fyrst húfuna úr Mandarin Petit og hún passaði á dúkku... og ein frænkan fékk því dúkkuhúfu og dúkkusokka með í jólapakkann :)

Ég heklaði húfuna úr Trysil Garn Tuva Helårsgarn og notaði heklunál nr. 4,5. Uppskriftina rakst ég á netinu eins og svo oft áður og þið finnið hana hér. Ég stækkaði uppskriftina eitthvað því að mér fannst fyrsta húfan sem ég gerði svo svakalega lítil. Ég gerði því tveimur umferðum lengra í útaukningunni þannig að það voru 72 lykkjur og alls 27 umferðir. Eyrnaböndin hafði ég 15 lykkjur og bandið gert úr 35 ll. Ég gerði blómið svona:  1. umf. 8 ll tengja í hring. 2. umf. 3 ll (stuðull), stuðull í hring, *6 ll, 3 stuðlar í hring* tengja með kl. = 6 lauf. 3. umf. 1 ll, sleppa 1 stuðli, *fl, hálfst. 7 stuðlar, hálfst. fl* í næsta boga. 1 fl sleppa 1 stuðli, kl í næsta stuðul = 6 blöð 4 umf. innra blóm á milli stuðla = *fl, 4 ll* allan hringinn. 5 umf. *hst , 3 stuðlar, hst, fl* allan hringinn. 6 umf. allra innsta (ef vill) *fl, 2 ll*allan hringinn og tengja með kl.

Ég man ekki alveg hvar ég fann uppskriftina af sokkunum en þeir eru heklaðir úr sama garni en með heklunál nr. 4,0. Uppskriftina skrifaði ég hjá mér svona 25 ll +1 (27+1) gera fastalykkjur þar til mælist 7,5 – 8,0 cm (8,0-8,5) eða 18 umferðir (20) (band hinum meginn). Því næst úrtaka 6 með jöfnu millibili tvisvar og er venjuleg umferð á milli en í lokin tekið úr 4-5 (1 á milli). Sauma saman og hafa gatið sem nemur 11-12 umf. Hafa hæl áfram opinn. Gera 2 fl í hverja lykkju. Næsta umferð er til að gera göt fyrir band og byrjað 3 ll +1 og sleppa einni lykkju og stuðul í næstu + 1 ll osfrv. Gera svo tvær umferðir með fl í hverja. Enda svo á einni umferð í sama lit og bandið á að vera. Band 90 + 1 ll og fl til baka.



Smekkurinn er heklaður úr Sandnes Garn Mandarin Petit á heklunál nr. 3,0 og uppskriftina má finna hér.

Prjónað bindi og eyrnaband með áttblaðarósinni

Þetta gerði ég fyrir matarboð með íslensku þema í einum saumaklúbbnum í byrjun árs 2010. Ég prjónaði bindið einfalt og straujaði flísilín aftan á og saumaði kantinn. Kannski væri flottara að hafa það tvöfalt og pressa það svo niður. Maðurinn minn var sem sagt með bindið... og ég með eyrnabandið.


Efni: Álafoss léttlopi

Andstæður - olía á striga

Vantaði eitthvað á vegginn hjá mér árið 2003. Reddaði mér því striga og olíumálningu og málinu reddað :)

Hárspangir og hattur

Ég hef stundum föndrað ýmislegt fyrir einhverjar uppákomur. Þessa bleiku með blóminu gerði ég árið 2010 fyrir blómaþema í matarboði í einum saumaklúbbnum mínum. Ég fann risablóm í Rúmfatalagernum og tók stilkinn af. Mamma átti bleikan borða sem ég vafði og saumaði svo utan um spöngina og að lokum saumaði ég blómið á spöngina.

Þessa gríðarlega fallegu páskaspöng gerði ég árið 2009 fyrir gulan dag í vinnunni í tilefni þess að það var páskabingó hjá starfsmannafélaginu. Eins og sjá má þá var ansi fljótlegt að föndra hana... bara gul spöng, nokkrir páskaungar og svo UHU lím :)
Þennan skrautlega hatt gerði ég fyrir hattadaginn í vinnunni í tilefni skráningar á árshátíð 2009. Ég keypti hattinn í Partýbúðinni og líka fjólubláu perlufestarnar, blómin í Blómaval líka skrautfjöðrina... svo var bara notað fullt af UHU lími :)

Barbie fondant kaka

Ég gerði þessa afmælisköku handa systurdóttur minni þegar hún varð 4ra ára árið 2009. Þetta var þvílík vinna... ég er ekki viss um að nenna þessu aftur... en afmælisbarnið var mjög ánægð með kökuna eins og sjá má :) Ég gerði líka Hello kitty kökur með því að skreyta möffins með fondanti :)


Hello Kitty budda og veski

Ég rakst á svo sæta Hello Kitty buddu á netinu og ákvað auðvitað að gera eina... eða reyndar tvær... ég samt fóðraði mína með bleiku lérefti og saumaði rennilás í svo að peningarnir myndu ekki detta út :) Buddan var svo lítil að hún var eiginlega bara fyrir litla putta... svo ein lítil sæt frænka fékk hana með í jólapakkanum.

Ég gerði svo aðeins stærri fyrir aðeins stærri frænku. Notaði líka bleikara garn en í hinni svo að það yrði skýrari munur. Heklaði svo blóm á rennilásinn... og reyndar á hinni líka svo að það yrði auðveldara fyrir litla putta að opna :)





Garn: Trysil Garn Tuva Helårsgarn
Mynstur: http://www.miseducated.net/?p=6320

Prjónuð eyrnabönd

Ég prjónaði þessi eyrnabönd á systurbörn mín. Ég gerði þau bara upp úr mér en mynstrið af Hello Kitty sá ég einhvers staðar á netinu. Spiderman mynstrið gerði ég sjálf en vefinn á milli sá ég einhvers staðar á vettlingum.



Hello Kitty eyrnabandið gerði ég á 40 cm hringprjónn nr. 3,5. Garnið er 100% ullargarn úr Europris (kambgarn). Ég fitjaði upp á 98 lykkjur. 1 og 2 umf sl og br til skiptist, 3 umf. slétt, 4 -15 umf. mynstur, 16 umf. slétt, 17 og 18 umf sl. og br. til skiptist, fella af, hár og slaufa saumuð í eftir á.



Spiderman eyrnabandið er gert eins og Hello Kitty eyrnabandið. Ég endaði á því að sauma hvíta og svarta út í Spiderman eyrnabandið því að það rykktist svo... ef ég myndi gera svona aftur þá myndi ég hafa stroffkantinn rauðan líka eða sleppa þessum kóngurlóarvefjum á milli :) Það eru sem sagt þrjú Spiderman andlit á eyrnabandinu.

Hér má svo sjá frænku og frænda með eyrnaböndin


Hekluð teppi

Ég heklaði mér þetta teppi sumarið 2010. Æðislegt að hekla í sólinni í útilegum... bara svolítið heitt þegar teppið var orðið stórt :)



Ég heklaði svo þetta um daginn... aldrei að vita nema að ég gefi þetta í sængurgjöf einhvern tímann. Þetta teppi er mjög gaman að gera og mjög auðvelt. Ég prófaði að hekla kant í kringum barnateppið en veit ekki hvort að það er flottara :)



Garn: Trysil Garn Superwash Ullgarn (Sportsgarn í stóra teppinu)
Heklunál: 5,0
Uppskrift: Kúr og Lúr

Hálsmen og eyrnalokkar

Ég fór á námskeið til að læra að þæfa utan um trékúlur til að gera hálsmen... það er svakalega skemmtilegt en svolítil handavinna og sull. Ég reyndar gerði eyrnalokkana seinna og notaði þá þæfingarnál til að gera kúlurnar í eyrnalokkunum því að ég vil hafa þær sem léttastar svo að það togni nú ekki á eyrunum :)


Ég ákvað svo í framhaldinu að gera flottari og setja eitthvað meira en þæfðar kúlur... eitthvað svona smá bling bling :) Ég gerði þetta græna sett fyrst og allir eru alltaf að dásama það hvar sem ég kem... þannig að mamma pantaði eitt í afmælisgjöf... bara ekki grænt :) Hún fékk því þetta bleika.





Efni: Silkiblönduð merino ull

Hekluð taska

Mig langaði svakalega að hekla mér tösku... skoðaði mikið á netinu og fletti einhverjum blöðum en fann ekkert sem heillaði mig. En sá svo sem aðferðir við að gera töskur... úr þessu varð þessi taska.


Ég skreytti hana svo með tveimur blómum í stíl við eyrnaböndin mín og setti tvær stórar (og RÁNDÝRAR) smellur á hana. Mér fannst hún verða að vera fóðruð og fór svolítill tími í það... þetta varð auðvitað að vera flott svo að það er hólf í henni með rennilás fyrir og hólf fyrir gemsann... og svo er lyklakippuband sem er snilld... svakalega fljótlegt að ná lyklunum upp :)


Garn: Álafosslopi
Heklunál: 6,0 (að mig minnir)

Heklaðar bjöllur

Þetta var ástæðan fyrir því að ég skellti mér á námskeið hjá Fræðsluneti Suðurlands til að læra að hekla. Mig langaði svo svakalega að geta heklað mér svona jólabjöllur :) Það gleymdist alveg að kenna mér að hekla í grunnskóla og ég var búin að vera að skoða á netinu leiðbeiningar og skoða myndbönd á youtube... en svo sá ég auglýst þetta námskeið og ákvað að læra þetta nú almennilega :) Sé sko alls ekki eftir því enda hef ég verið óstöðvandi í heklinu.


Uppskriftina má finna hér:
https://bland.is/messageboard/messageboard.aspx?advtype=59&advid=16385444

Hekluð eyrnabönd og stúkur

Mig langaði að gera handa mér eyrnaband... eitthvað gróft og flott... ég elska nefnilega gróft garn og grófar heklunálar og prjóna :) Ég hafði keypt mér tvær dokkur af Dale of Norway/Dalegarn Hubro og ætlaði þá að prjóna það þar sem ég var ekki búin að læra að hekla. Ég prjónaði perluprjón og á ekkert svakalega stóra prjóna að mig minnir en ég var ekki nógu ánægð. Eftir að lærði að hekla þá ákvað ég að prófa að hekla úr þessu garni og fannst það svo gaman og flott... og svo prófaði ég mig áfram með að gera þetta blóm en venjuleg hekluð blóm fannst mér ekki koma nógu vel út í svona grófu garni.
Mig langaði til að gera úr fleiri litum og gerði nokkur... prófaði bæði úr Eskimo og Iglo Soft. Gerði m.a. á systkinadætur mínar. Svo fór ég að þróa að gera stúkur í stíl...og setti svona blóm á líka... gerði svoleiðis sett handa mér í tveimur litum og svo handa mömmu og systur minni.


Heklunál: 8,0 

Margir hvöttu mig til að fara að selja svona og opnaði ég þá sölusíðu á Facebook en hef ekkert auglýst nema á barnalandi... þannig að það hefur nú ekkert verið brjáluð sala í þessu en eitt og eitt... er bara ekki að nenna að byggja upp einhvern lager og fara svo að leigja bás einhversstaðar :)

Hér getið þið skoðað fleiri myndir af eyrnaböndunum og stúkunum... og jafnvel pantað ef ykkur langar til að eignast slíkt: Hekluð eyrnabönd -ÓLE á Facebook 

Hér er svo í lokin ein mynd af frænku með eyrnaband systur sinnar en það er gert úr Garnstudio DROPS Eskimo :)

Túlípana ljósaseríur

Ég fór eitt sinn á námskeið til að læra að gera hálsmen úr þæfðum kúlum. Þar var notuð merino ull sem þæfð var utan um trékúlur. (Hér getið þið séð skartgripina)

Ég rakst á netinu að það var verið að þæfa utan um golfkúlur og sett svo á ljósaseríur. Ég sá að flestir voru að gera þetta í þvottavél en ég var ekki til í að fórna minni... reyndar sá ég líka að sumir voru að nota frauðkúlur og prófaði það en mér fannst útkoman ekki nógu jöfn og falleg... það sannast að ekkert jafnast á við handgert :)



Þetta er auvitað mikil handavinna... en mér finnst þetta vera mjög skemmtilegt... svolítið minna samt í sniðum að gera í skartgripi. Mér fannst smartast að vera með hvítan grunnlit og setja svo annan yfir. Minn smekkur er að hafa þetta frekar þunnt en samt að hylja alveg yfir grunnlitinn. Ég notaði svo þynntan uppþvottalög til að þæfa úr. Mér fannst líka flott að stífa þær þannig að þær séu vel opnar og notaði ég stífelsi úr Föndru til verksins sem mig grunar nú að sé bara útþynnt trélím... amk var lyktin eins :) Þegar ég klára þetta stífelsi þá held ég að ég muni bara kaupa næst trélím og þynna það með vatni. Svo notaði ég límbyssuna til að tylla blómunum á seríuna því annars voru þau alltaf að detta af.

Efni: Íslensk kemba

Þæfðir músaskór

Ég ákvað að fjöldaframleiða músaskó á systkinabörnin mín... ég hafði séð músaskó á handverksmarkaði fyrir norðan og fannst þeir svo sætir. Svo datt mér í hug að prófa að gera svona til að hafa með í jólapakkana handa systkinabörnunum. Það var svolítið snúið að finna rétta stærð... en já þetta hafðist allt á endanum :)


Ég fann á netinu uppskrift af þæfðum inniskóm en þurfti auðvitað að aðlaga stærðirnar. Ég hafði þá alla slétta og svo prjónaði ég eyru með þvík að fitja upp á 3-5 lykkjur (eftir stærð) og prjónaði nokkrar umf. sl og br. og svo þræddi ég böndin upp og niður til að rykkja í boga og saumaði á skóna. Svo var þessu skellt í þvottavélina á 40°C. Augun og nefið voru svo saumuð í eftir á. Ég keypti "Sock stop" efni í Föndru sem ég málaði undir skóna svo að enginn myndi fljúga á hausinn. Ég elska þessa skó í ræmur enda á ég eina slíka sjálf sem ég fer varla úr :)


Garn: Álafosslopi
Prjónar: 6,0

Heklað utan um krukkur og lampa

Ég skoða mjög oft handavinnublogg og rakst á svakalegar flotta kertastjaka hjá Handóðri. Hún heklaði utan um krukkur og setti sprittkerti í... mér fannst þetta ekkert smá flott og auðvitað langaði mig til að gera eins, en hún var ekki með neina uppskrift þannig að ég gúgglaði og fann mjög flotta og einfalda uppskrift hjá naturenutnotes.com.



Það er nú oft þannig með mig að þegar ég sé eitthvað flott þá bara verð ég að gera það NÚNA... og það er sko ekki hætt fyrr en það er búið að klára verkið :) Ég var nú svo sem enga stund að gera þessa... og er reyndar búin að gera líka utan um tvær stærri krukkur... svo vatt þetta líka aðeins upp á sig því að mig hefur lengi langað til að hekla utan um IKEA lampa sem ég er með úti í glugga... ég var reyndar byrjuð á því en fannst það ekki nógu flott svo að ég bara rakti það upp og heklaði með sama mynstri og utan um krukkurnar :)



Er hrikalega ánægð með lampann... og á reyndar tvo aðra stærri í sama stíl... aldrei að vita hvort að ég hekli líka utan um þá einhvern tímann :)

Garn: Trysil Garn Tuva Helårsgarn
Heklunál: 3,5 (4,0 utan um lampann)
Uppskrift: http://www.naturenutnotes.com/2011/01/crochet-votive-tutorial.html
Athugasemdir: Aðvelt að gera. Passa að hafa vel strekkt utan um það sem verið er að hekla utan um.

Hekluð sjöl

Ég elska að hekla þessi sjöl... er alveg að klára það þriðja :) Ég gerði rautt handa mér sjálfri, tengdamamma fékk þetta hvíta og er að gera skærbleikt handa mömmu :)




Garn: Trysil Garn Iglo soft
Magn: 7 dokkur
Heklunál: 6,5
Uppskrift: Prjónablaðið Ýr nr. 36
Athugasemdir: Fannst það vera full lítið þannig að ég stækkaði uppskriftina með því að bæta við 32 lykkjum