31. maí 2012

Heklað farsíma hulstur

Rakst á myndband sem sýnir hvernig maður heklar svona sætt uglu farsíma hulstur... ég auðvitað varð að gera svona utan um nýja símann minn enda var ég hrædd um að hann myndi rispast í öllu draslinu sem maður er með í veskinu :)

Heklað farsíma hulstur

Uglu hulstur

Bakhliðin á uglu hulstrinu

Ég ákvað að fylgja myndbandinu og límdi hlutina á... vona að þeir haldist á :)

Garn: Trysil Garn Tuva Helårsgarn og Sandnes Garn Mandarin Petit (í gogginum)
Heklunál: 3,0 mm

23. maí 2012

Flottur frændi í lopagallanum

Gallinn er vel stór á frænda minn en uppskriftin segir að gallinn sé fyrir 6 - 15 mánaða... hann getur þá notað hann kannski næsta sumar líka :) Mér finnst bæði gallinn og frændinn vera svakalega sætir ;)

Frændi flottur í lopagallanum


Allt um gallann má sjá í þessari færslu:
http://fondrari.blogspot.com/2012/05/lopagalli-og-spiralsokkar.html

22. maí 2012

Lopagalli og spíralsokkar

Loksins er ég búin að ganga frá gallanum sem ég byrjaði á um páskana... en jú það var auðvitað svo mikið að gera í skólanum að ég hafði ekki tíma. Er alveg viss um að frændi verði svo sætur í þessum galla í útilegunum í sumar :)

Lopagalli 

Barnagalli úr lopa

Lopagalli bakhlið

Kinda mynstur

Kindamynstur bakhlið

Eins og sjá má á myndunum þá notaði ég ekki lamba tölurnar sem ég bjó til úr fimo leirnum. Þar sem frændi minn er orðinn ansi vel tenntur þó að hann sé ekki nema átta mánaða þá þorði ég ekki að setja þær á. Ég nefnilega prófaði að bíta í eina og hún brotnaði auðveldlega... þær verða því bara að bíða í eitthvað annað á stálpaða krakka :)

Ég prófaði núna að ganga ekki frá endunum í mynstrinu heldur draga þá í gegnum miðjuna og sauma svo... þannig að ég varð að klippa, sauma og hekla fyrir þvott... það heppnaðist bara fínt :) Mjög fínt að spara sér að ganga frá öllum endunum ;)

Ég fékk fína æfingu í að lykkja saman í þessum galla... auðvitað þurfti að lykkja saman undir höndum en við bættist að lykkja saman á hettu og í klofi :) Ef einhver er að leita að aðferð til að lykkja saman þá mæli ég með þessu myndbandi:
http://www.knittinghelp.com/video/play/kitchener-stitch

Ég prjónaði svo ullarsokka handa frænda í stíl við gallann en gerði þá hælalausa. Þá endast sokkarnir honum lengur því að ég hafði þá vel langa :)

Spíralsokkar - hælalausir ullarsokkar 

Gallinn:
Garn: Tvöfaldur plötulopi
Prjónar: 4,5 og 5,5 mm
Heklunál: 5,0  mm
Uppskrift: https://www.facebook.com/Buffaloasa

Sokkarnir:
Garn: Tvöfaldur plötulopi
Prjónar: 5,5 mm
Uppskrift: Sokkar og fleira

18. maí 2012

Heklaðir smekkir

Litlum frænda mínum vantaði smekki og þar sem hann er átta mánaða þá fannst mér Tinnu-smekkurinn vera of lítill.

Ég prófaði því að hekla hringsmekk. Þegar ég var búin að gera hann samkvæmt uppskriftinni þá fannst mér hann alltof stuttur þannig að ég stækkaði hann. Mér finnst hann ekki vera nógu praktískur þar sem frændi er nú farinn að fá að borða þannig að ég gerði annan...

Heklaður hringsmekkur

... ég tel að hann sé mun stærri og praktískari... ef systur minni líkar vel við hann þá á ég örugglega eftir að hekla fleiri handa sæta frænda :)

Sætur heklaður smekkur

Hringsmekkur:
Garn: Trysil Garn Tuva Helårsgarn
Heklunál: 3,5 mm
Uppskrift: http://www.simnet.is/flytisida/pattar/smekkur-hekl.txt (uppskrift ekki lengur aðgengileg)

Röndótti smekkurinn:
Garn: Sandnes Garn Mandarin Petit
Heklunál: 3,0 mm.
Uppskrift: engin

12. maí 2012

Er á lífi

Mig langaði bara til að láta vita af því að ég er á lífi og á miðvikudaginn er fyrsti dagurinn í sumarfríinu... sem reyndar verður í þrjá mánuði! :)

Það er búið að vera brjálað að gera í skólanum en ég er búin að vera í þriggja vikna verkefni og þar á undan í prófum... Ég náði nú samt alveg að gera eitthvað smá en síðustu tvær vikur hef ég ekkert getað gert... alveg agalegt ;)

Núna eiginlega er ég samt á þeim stað að vita varla hvað mig langar að gera... hafið þið einhverjar hugmyndir? Ég reyndar ætla að klára að ganga frá lopagallanum sem ég prjónaði að lítinn frænda... en ég byrjaði reyndar á honum um páskana en skólinn olli því að ég var óvenjulengi með hann ;)