14. maí 2013

Heklaður dúkur

Ég lét loksins verða af því sem mig hafði lengi langað til að gera en það var að hekla dúk og hengja hann upp á vegg. Ég átti tilvalið garn í þetta en ég er pínu hrifin af fjólubláu og hafði keypt það fyrir tveimur árum síðan og ætlaði einmitt í dúk... stal reyndar pínu af því um síðustu jól en þá heklaði ég barbíkjól úr því. Ætli ég hafi bara ekki verið að leita að einhverri stórri fallegri dúllu eða dúk í verkið og þegar ég fann loksins eina sem ég heillaðist af þá dembdi ég mér í verkið. Það gekk vel að hekla dúkinn en þurfti að gera hann með nokkrum hléum vegna anna.

Heklaður veggdúkur

Ég ákvað að stífa hann svo með sykurvatni þar sem ég hugsaði að ég gæti þá þvegið hann og notað sem dúk ef þetta yrði nú ekki fallegt. Ég vonaðist líka til að dúkurinn yrði glerharður en hann er það þungur að þegar ég hengdi hann upp á naglann þá bara rúllaðist upp á hann. Ég vildi nú ekki fara að negla fullt af nöglum í vegginn og brá því á það ráð að nota fullt af hvítu kennaratyggjói til að festa dúkinn upp á vegg.

Heklaður dúkur á vegg

Ég hengdi fyrst upp dúkinn ein og mér veitti greinilega ekki af fleiri höndum því að það varð kipringur þar sem ég hengdi hann á naglann. Það pirraði mig pínu og þar sem ég er haldin pínu fullkomnunaráráttu þá auðvitað lagaði ég þetta og tók nýjar myndir þegar ég hafði fleiri hendur til að hjálpa mér ;)

Heklaður dúkur

Garn: Mandarin heklegarn
Heklunál: 2,0 mm.
Uppskrift: http://crochetartblog.blogspot.com/2013/04/crochet-round-doilies-crochet-lace-free.html