Sýnir færslur með efnisorðinu Peysur. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Peysur. Sýna allar færslur

11. febrúar 2018

Skjaldmey - lopapeysa

Ég prjónaði fyrir nokkrum árum síðan lopapeysu á mig úr tvöföldum lopa sem ég hef notað mikið... svo mikið að það eru komin göt á hana og því varð ég að prjóna mér nýja. Mig hafði lengi langað til að gera Skjaldmey eða alveg síðan Lopablaðið kom út og ég sá hana í blaðinu... en aldrei gefið mér tíma í að prjóna eina slíka. En nú var auðvitað kjörið að nýta tækifærið þar sem mig vantaði nýja peysu.

Skjaldmey - lopapeysa

Ég þarf auðvitað að stækka uppskriftirnar og nenni sjaldan að gera prjónafestuprufu þannig að ég ákvað að prjóna hana ofan frá og ég segi það sem ég hef oft áður sagt... ég skil ekki að allar peysuuppskriftir séu ekki hannaðar svoleiðis... það er svo þægilegt að geta mátað og séð strax ef eitthvað mætti betur fara... þannig peysan passar alltaf... tja reyndar átti annað eftir að koma í ljós ;)

Fyrir og eftir þvott

Ég prjónaði peysuna og bjóst alveg við að það myndi teygjast á mynstrinu og hún síkka pínu en já hún síkkaði mjög mikið eins og sjá má á þessari mynd sem sýnir peysuna fyrir og eftir þvott.

Nýja lopapeysan

Ég velti þessu fyrir mér og ég var ekki nógu ánægð með hvað ermarnar voru víðar og reyndar síðar... þannig að ég klippti þær af og prjónaði nýjar og hafði þær einni umferð styttri. Einnig ákvað ég að hekla eina umferð með einbandinu meðfram kantinum þar sem mér fannst hann ekki nógu sléttur og tók líka eina umferð meðfram hálsmálinu til að þrengja það pínu og svo setti ég nokkrar pelsakræjur sem sjást ekki til að geta haft hana hneppta... er miklu ánægðari með peysuna svona ;)

Skjaldmey - lopapeysa

Já ég breytti líka aðeins meiru en ég sagði hér að ofan... eða eiginlega öllu nema hugsanlega mynstrinu. Ég vildi hafa peysuna létta og ákvað að nota frekar tvöfaldan plötulopa frekar en Álafosslopa og sé sko ekki eftir því. Ég breytti líka ermunum en þær koma niðurmjókkandi en það hentar mér mun betur en einhverjar útvíðar ermar... ég reyndar hafði þær líka niðurmjókkandi þessar sem ég klippti af en ég gerði bara meiri úrtökur en ég gerði áður.

Skjaldmey - lopapeysa

Garn: Tvöfaldur plötulopi og einband
Prjónar: 6,5 mm
Uppskrift: stuðst við Skjaldmey í Lopa nr. 32

24. september 2013

Hekluð peysa á mig


Ég var bara áðan að klára heklaða peysu á mig... er ekki einu sinni búin að þvo hana ;) Ég var ekkert mjög lengi að hekla hana en uppskriftin vafðist mjög mikið fyrir mér þegar kom að því að setja hana saman þ.e. þar sem sjalkraginn mætir bakstykkinu. Uppskriftin er bara ekki nægilega góð að mínu mati... frekar en aðrar uppskriftir sem ætlast bara til að fólk finni sjálft út úr hlutunum.... en að öðru leyti er uppskriftin fín ;)

Ég ákvað að nota einfaldan plötulopa því að ég er mjög hrifin af plötulopa og hann er ódýr. Ég var ekki tilbúin að nota eitthvað dýrt garn því að garnmagnið yrði svo mikið og svo var ég heldur ekki viss um hvernig peysan færi mér ;)

Hekluð peysa - Waterfall

Hekluð peysa eftir uppskrift frá DROPS design

Ermar á hekluðu peysunni

Bakið á hekluðu peysunni

Peysan er vel stór og er ég búin að vera að velta vöngum yfir því hvort að ég eigi að skella henni í smá stund í þurrkarann þegar ég þvæ hana eða ekki... annars held ég samt að peysan sé flottari ef hún er vel stór... þannig að ætli ég láti ekki bara þvott duga amk að sinni ;)

Þið verðið bara afsaka að ég hafi ekki málað mig né greitt mér sértstaklega fyrir myndatökuna en ég held nú að þið séuð líka meira að spá í hvernig peysan líti út en ég... eða það vona ég allavegana ;)

Garn: plötulopi
Heklunál: 5,0 mm
Uppskrift: http://www.garnstudio.com/lang/is/pattern.php?id=6259&lang=is

10. september 2012

Hekluð ungbarnapeysa

Ég ákvað að prófa að hekla peysu úr Þóru - heklbók á 1 árs frænda minn... var búin að sjá svo margar dásamlega fallegar myndir af peysunni og ákvað að prófa sjálf :)

Ég er mjög hrifin af bæði útkomunni og uppskriftinni ef frá er talið úrtökunar... mér finnst þær sjást of mikið en kannski taka aðrir ekki eftir því ;) Ég prófaði nokkrar leiðir en fannst skásta útkoman vera eins og sagði í uppskriftinni :) Peysan er mjög auðveld og fljóthekluð... en mikið svakalega voru margir endar til að ganga frá (ég ákvað að hekla ekki yfir þá þar sem ég taldi að þeir myndu sjást of mikið).

Hekluð ungbarnapeysa úr Þóru - heklbók

Mér finnst myndin ekki alveg fanga réttu litina... blái er svolítið blágrænn. En skelli annari mynd sem sýnir svo sem litina ekki betur en var aðeins að fikta í símanum...

Önnur mynd af peysunni


Eitt tips en það er að athuga hvort að litaskiptin gangi upp áður en farið er að hekla... ég spáði ekkert í þessu og þau gengu ekki alveg upp eins og ég hefði viljað t.d. enda á grænu og hvítu fyrir kantinn en ekki bláu og hvítu :)

Garn: Kambgarn
Heklunál: 3,5 mm (og 4,0 mm í kanntinn)
Uppskrift: Þóra - heklbók