Sýnir færslur með efnisorðinu Gardínur. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Gardínur. Sýna allar færslur

17. mars 2019

Hekluð gardína

Ég átti víst alltaf eftir að blogga um eldhúsgardínuna mína sem tók nokkur ár að hekla reyndar með löngum hléum... en ég var reyndar búin að pósta mynd á Facebook síðunni í nóvember 😉

Hekluð gardína

Ég flutti fyrir 5 árum og var staðráðin í að hekla mér eldhúsgardínu og hafði verið búin að kaupa gardínublað einhverju áður og hófst handa reyndar tæpu ári eftir að ég flutti eða í janúar 2015 (sé það inni á Ravelry sem er snilld til að halda utan um alla hluti).

Hekluð eldhúsgardína í vinnslu

Þar sem mér leiðist afskaplega að vera endalaust að gera það sama þá kastaði ég þessu verkefni ansi oft frá mér og að lokum bara gleymdist það inni í skáp. Ég rakst svo á þetta aftur í október í fyrra og fletti upp hvenær ég hefði byrjað á því og þá ákvað ég að nú væri kominn tími á að klára og láta ekki enn fleiri ár líða 😂 Ég sá að það var mjög lítið eftir þannig að ég sat stíft við til að klára og upp skyldu gardínunar fyrir jól... það gerðist en ég reyndar uppskar geðveika vöðvabólgu í kjölfarið 😏

Kafégardin med spindler

Hekluð gardína í strekkingu

Það var pínu mál að strekkja gardínuna þar sem hún er svo löng en ekkert mál með góðum græjum 😁 Ég keypti þessa mottu á bland.is á sínum tíma og strekkivírana í Handprjón og hef sko notað þá mikið. Eina sem ég áttaði mig ekki á var hve gardínan lengdist mikið við strekkingu en ég gerði alveg ráð fyrir smá en þetta var mun meira en ég bjóst við svo að þá varð bara smá rykking/fellingar á gardínunni í glugganum.

Garn: Solberg Garn 12/4 Mercerisert
Heklunál: 1,75 mm
Uppskrift: Kafégardin med spindler úr Solberg hefte nr. 48

19. janúar 2015

Heklaðar gardínur

*hóst* þetta verkefni hófst 17. maí 2013 (allt Ravelry að þakka að ég get nefnt nákvæma dagsetningu) og átti þetta fyrst að verða dúkur á borðstofuborðið... svo fannst mér garnið vera fullgróft til að vera dúkur og þá datt mér hug að þetta yrði flott sem rúmteppi... en svo leið og beið og ég fékk leið á þessu verkefni og greip ansi sjaldan í það... þá datt mér í hug að klippa stykkið í sundur (með tilheyrandi frágangsvinnu að ég held að ég hefði verið fljótari að hekla bara nýtt) og nota sem gardínur á baðið :)

Heklaðar gardínur á baðið


Hekluð gardína

Ég á svo slatta af dúllum til viðbótar sem ég veit ekki hvað ég geri við... amk er ég mjög glöð með að vera komin með fínar baðgardínur og þá er bara að koma sér í að byrja einhvern tímann á því að hekla gardínur í eldhúsið sem ég hélt að yrði mitt fyrsta verk eftir að ég væri flutt... en það er bara alltaf eitthvað annað sem glepur :)

Garn: Satúrnus
Heklunál: 2,5 mm
Uppskrift: Prjónablaðið Ýr nr. 43