3. ágúst 2020

Prjónaðar tuskur - Waffle Love


Ég á svo mikið af garni og ætla að minnka eitthvað af bómullargarninu með því að prjóna tuskur... svo þægilegt að prjóna svona lítil stykki og þægilegt að hafa eitthvað í höndunum yfir sjónvarpinu. 


Ég byrjaði á að prjóna þessa uppskrift og er hún fín... eina að hún er ekki eins falleg á bakhliðinni 😋 Mjög einföld uppskrift og mjög fljótprjónuð.


Garn: Mandarin Petit
Prjónar: 3,5 mm
Uppskrift: Waffle Love

2. ágúst 2020

Prjónað vesti


Þetta vesti var ég að gefa bara í gær en önnur frænka mín bað mig að prjóna á sig vesti sem átti ekki að vera með v-hálsmáli og átti að vera stutt. Þar sem frænka mín býr ekki á landinu þá gat ég ekki fengið hana til að máta. Ég byrjaði á að finna uppskrift til að styðjast við en ég valdi fíngerðara garn þar sem hún er bara 12 ára og vestið þurfti því að vera ca í stærð XS😊


Ég studdist því við uppskriftina og miðaði lykkjufjöldann í stærð S en svo þurfti ég að breyta nánast öllu öðru... en það varð að vera styttra og því þurfti ég líka að finna bara út úr ca hvenær ég átti að byrja á handveginum og hálsmálinu og svo varð ég líka að hafa axlirnar aðeins mjórri. Þegar hún kom svo til landsins þá kom í ljós að vestið var of stutt og handvegurinn að mínu mati pínu of þröngur þannig að ég rakti upp og bætti við 6 umferðum og þá passaði það fínt.

Eina sem ég er ekki sátt við að mér finnst allt önnur áferð á þegar ég prjóna fram og til baka eða í hring... þarf kannski að æfa mig meira í því 😎

Garn: King Cole Anti-Tickle Merino Blend DK
Prjónar: 4,5 og 5,0 mm
Uppskrift: College Days

Lopapeysa Lopi 120


Frænka mín bað mig um að prjóna á sig lopapeysu en hún ætlaði til Eyja á Þjóðhátíð 2020... en svo kom Covid og núna er engin Þjóðhátíð... en þar sem það er Verslunarmannahelgin þá mundi ég eftir að ég ætti eftir að blogga um lopapeysuna sem ég prjónaði á hana 😆

Þökk sé Ravelry þá sá ég að ég byrjaði á peysunni 1. nóvember í fyrra en svo kom Covid og maður nennti engu en ég kláraði hana svo 13. maí og gaf henni. Hún valdi uppskriftina og litina og hún kom bara vel út og gaman að prjóna hana. Gæti alveg hugsað mér að prjóna fleiri lokaðar peysur því að þá er nánast enginn frágangur... en eins og svo oft áður þá snéri ég mynstrinu við þ.e. prjónaði hana ofan frá sem er að mínu mati rétta leiðin til að prjóna lopapeysur því að þá er hægt að máta og hún verður eins og maður vill hafa hana.

Garn: tvöfaldur plötulopi
Prjónar: 5,5 og 6,5 mm
Uppskrift: Ístex Álafoss Lopi 120 einblöðungur