Sýnir færslur með efnisorðinu endurvinnsla. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu endurvinnsla. Sýna allar færslur

16. ágúst 2015

Heklað utan um krukkur

Voðalega er ég löt að blogga... en sem betur fer er ég miklu duglegri að hekla ;) Það sést reyndar meira til mín á Facebook-síðu bloggsins þannig að ef þið viljið fylgjast betur með mér þá er kjörið að smella einu "læki" á síðuna :)

Ég hóf sem sagt strax handa við að byrja á eldhúsgardínum eftir að ég kláraði baðgardínurnar sem var það síðasta sem ég bloggaði um sem var í janúar! Ég er eiginlega búin með neðri kappann en er aðeins að hugsa hvort að ég vilji hafa þær alveg beinar eða smá rykkingu... og svo er stóra spurninginn hvort að ég fíli nokkuð að hafa tvo kappa :) Þannig að það verkefni er komið í smá bið. Ég á *hóst* ansi mörg verkefni sem eru á bið... hálfkláruð sjöl, hálkláruð teppi osfrv... ég ætla samt ekki að láta gardínuna fara í þann pakka... ég lofa ;)

Ég er svo líka búin að vera að hekla utan um krukkur annað slagið. Ég því miður hef ekki alltaf skrifað hjá mér hvaða heklunál ég notaði og hvar ég fann mynstrið en ég er að spá í að reyna að grafa þetta upp og skella inn bloggfærslum með krukkunum.

Heklað utan um krukku


Best að byrja þá að skella inn þessari sem ég heklaði utan um í gær. Ég var ekki nógu ánægð með myndirnar en þær verða bara að duga að sinni. Mér finnst mér vanta einhvern fallegan bakgrunn svo að krukkurnar njóti sín... en þetta þarf ekkert að vera fullkomið er það nokkuð?

Heklað utan um sultukrukku

Þegar ég var að hekla mynstrið þá fannst mér það eitthvað kunnulegt og jú viti menn ég hafði heklað þetta áður þegar ég var að prufuhekla uppskrift... sem sagt ég á krukku með þessu mynstri en hún kom reyndar öðruvísi út vegna þess að ég notaði stærri heklunál og annað garn... og jú svo var auðvitað botninn og toppurinn öðruvísi.

Krukkuhekl

Garn: Solberg Garn 12/4 Mercerisert
Heklunál: 1,5 mm
Uppskrift: engin en mynstrið er #203 í The Complete Book of Crochet Stitch Designs


Læt eina aðra krukku fylgja sem ég heklaði um daginn sem fór í hjólhýsið en það er allt appelsínugullt í því þannig að hún var auðvitað í stíl við það ;)

Hekluð krukka

Garn: Mandarin Petit
Heklunál: 2,5 mm
Uppskrift: http://fondrari.blogspot.com/2013/11/heklu-krukka-uppskrift.html

28. nóvember 2013

Umfjöllun í jólablaði Fréttatímans

Í jólablaði Fréttatímans sem kom út í morgun er smá umfjöllun um mig og uppskriftin af Skeljakrukkunum.

Umfjöllun í jólablaði Fréttatímans


Hægt er að nálgast blaðið á pdf formi hér:
http://frettatiminn.is/images/uploads/tolublod/28_11_2013_LR.pdf

8. nóvember 2013

Hekluð krukka - uppskrift

Mér þykir rosalega gaman að hekla utan um krukkur en það er svo gaman að endurnýta eitthvað í stað þess að fleygja því í ruslið. Nú er akkúrat tíminn fyrir kertaljós og kósýheit þannig að ég skellti í eina uppskrift í stað þess að hekla bara af fingrum fram. Ég var nefnilega búin að sjá að það er ekkert svakalega mikið um uppskriftir á íslensku og vil því leyfa fleirum að njóta :)

Það er hins vegar svolítið tímafrekt að búa til uppskriftir ef maður vill vanda vel til verks og sérstaklega utan um krukkur því að það þarf að vera hægt að aðlaga uppskriftina að ýmsum stærðum. Uppskriftir vilja líka breytast svolítið frá fyrstu týpu þannig að ég eyddi töluverðum tíma í þetta en ég vona að þið verðið sátt við útkomuna.

Hekluð krukka - uppskrift

Skeljakrukka

Það getur þurft að aðlaga svolítið uppskriftirnar eftir því hvernig krukku og/eða garn er verið að nota. Ég mæli með því að hekla botn undir krukkurnar því að mér finnst annars flöturinn undir hitna mikið. Svo er auðvitað gott að minnast á mikilvægi þess að skilja aldrei logandi kerti í krukkunum án eftirlits.

Ég nota bómullargarn s.s. Bianca frá Marks, Cotton 8/4 Merceriseret frá Mayflower eða Bomuld 8/4 Merceriseret frá Løve Garn, 2,5 mm heklunál og krukku undan hnetusmjöri frá Sollu.

Skammstafanir:
ll = loftlykkja,
kl = keðjulykkja,
fl = fastalykkja,
st = stuðull,
tbst = tvöfaldur stuðull,
llb = loftlykkjubogi,
L = lykkja,
umf = umferð,
2stsam = úrtaka, *slá bandinu upp á, fara með nálina í næstu L og ná í bandið, [slá bandinu upp á og draga í gengum tvær L]; endurtaka frá * 1 sinni til viðbótar, slá bandinu upp á og draga í gegnum allar 3 L á nálinni.

Botn:
Gerið galdralykkju (magic ring).
1. umf. 3 ll (telur sem st), 9 st utan um hringinn, tengja með kl í 3. ll. Dragið galdralykkjuna saman (samtals 10 st).
2. umf. 3 ll (telur sem st), 1 st í sömu L, *2 st í hverja L* endurtaka út umf það sem er á milli * *, tengja með kl í 3. ll (samtals 20 st).
3. umf. 3 ll (telur sem st), 1 st í sömu L, 1 st, *2 st í sömu L, 1 st* endurtaka út umf það sem er á milli * *, tengja með kl í 3. ll (samtals 30).
4. umf. 3 ll (telur sem st), 1 st í sömu L, 2 st, *2 st í sömu L, 2 st* endurtaka út umf það sem er á milli * *, tengja með kl í 3. ll (samtals 40).

Núna þekur stykkið nánast botn krukkunar en ef þið eruð með stærri krukku þá getið þið fjölgað umf með sama sniði þ.e. st á milli fjölgar um 1 í hverri umf þannig að næst yrði gert 2 st í sömu L, 3 st.

Krukkan:
Mynstrið sjálft er margfeldi af 8. Þannig að þið þurfið að aðlaga næstu umf að mynstrinu ef þið eruð með fleiri umf í botninum. Ef ykkur finnst stykkið vera of þröngt og of vítt með því að fjölga endurtekningum þá er hægt að bæta við ll sitt hvorum megin við tbst. Gott að prófa að setja krukkuna í stykkið eftir 6.-7. umf til að sjá hvort að stykkið sé nokkuð of vítt á krukkunni.

5. umf. 3 ll (telur sem st), *1 st í hverja L* endurtaka út umf það sem er á milli * *, tengja með kl í 3. ll (samtals 40 st).
6. umf. 4 ll (telur sem tbst), *hoppa yfir 3 L, (3 tbst, ll, 3 tbst) í næstu L, hoppa yfir 3 L, 1 tbst í næstu L* endurtaka út umf það sem er á milli * * en sl síðasta tbst í síðustu endurtekningunni, tengja með kl í 4. ll.
7. umf. 4 ll (telur sem tbst), *(3 tbst, ll, 3 tbst) í gatið á millið stuðlahópanna, 1 tbst í næsta tbst* endurtaka út umf það sem er á milli * * en sl síðasta tbst í síðustu endurtekningunni, tengja með kl í 4. ll.

Endurtakið 7. umf. þar til stykkið nær upp að háls krukkunar með því að toga það svolítið upp. Mér þykir fallegra að hafa stykkið þétt um krukkuna. Ég gerði 7. umf samtals 5 sinnum.

Þið gætuð þurft að smeygja krukkunni í stykkið fyrir næstu umf en annars eftir hana. Gangið frá upphafsendanum áður en þið haldið áfram.

12. umf. 6 ll (telur sem st og 3 ll), *1 fl í gatið á milli stuðlahópanna, 3 ll, 1 st í tbst, 3 ll* endurtaka út umf það sem er á milli * * en sleppið að gera st í tbst og 3 ll í síðustu endurtekningunni, tengja með kl í 3. ll.

Háls:
Gott að reyna að hekla nokkuð fast næstu umferðir.

13. umf. *4 fl í næsta llb, sl fl, 4 fl í næsta llb, sl st* endurtaka út umf það sem er á milli * * en endið á því að gera 4 fl í síðasta llb og tengja með kl í fyrstu fl (samtals 40 fl)

Þá er komið að því að þrengja opið en þarna gætuð þið þurft að aðlaga úrtökuna að ykkar krukkum því að hálsarnir eru mjög mismunandi eða jafnvel fækka eða fjölga umferðum.

14. umf. 3 ll (telur sem st), 1 st í hverja L út umf. en takið úr 5 L með reglulegu millibili með því að hekla 2stsam (samtals 35 st).
15. umf. 3 ll (telur sem st), 1 st í hverja L (samtals 35 st).
16. umf. heklið krabbahekl (fl heklaðar í öfuga átt) í hverja L.
Klippið og gangið frá endanum.

Svo er bara um að gera að skella einu sprittkerti í og njóta :)

© Ólöf Lilja Eyþórsdóttir - það má ekki afrita uppskriftina á neinn máta án míns samþykkis.

Hér er svo linkur á uppskriftina á Ravlery fyrir þau ykkar sem eru þar:
http://www.ravelry.com/patterns/library/skeljakrukka---crochet-jar-cover

Hekluð krukkaKrukkuhekl

2. september 2013

Litskrúðugt krukkuhekl

Eins og þeir sem líka við Facebooksíðu bloggsins hafa tekið eftir þá hef ég verið óstöðvandi í að hekla utan um krukkur undanfarna daga. Mér finnst þetta akkúrat vera tíminn til að sitja inni og hafa kósý meðan veðrið dynur á gluggunum. Ég var ekki búin að hekla í nokkra daga en ég var komin með pínu hekl-leiða á stóru verkefnunum sem ég er með í gangi þá var kjörið að finna einhver lítil verkefni til að upphefja andann :)

Ég ætla bara að skella inn fullt af myndum af þessum dásemdum... mér finnst þetta vera svo kósý :)


Hekluð krukkuljós - crochet jars
 
Heklaðar krukkur

Krukkuljós
 
Heklað utan um krukkur

Ein sem sýnir betur litina

Ég er ánægðust með þessar tvær krukkur þ.e. appelsínugula og lillabláa þó að auðvitað eru þær allar sætar :) 

Appelsínugul krukka

Lillablá krukka
 

Garn: í allar krukkurnar nema gulu: Løve Garn Bomuld 8/4 Merceriseret, gula krukkan: Marks & Kattens Bianca.
Heklunál: 2,5 mm
Uppskrift: engar en ég skoðaði mörg mynstur í mynsturbók sem ég á en svo vafraði ég bara um netið og skoðaði Pinterest og fann nokkur mynstur þannig.


Úpps... ég var að gleyma þessum sem ég byrjaði á að gera... amk gleymdi ég þeim þegar ég tók hópmyndina ;)

Heklaðar krukkur


Garn: Trysil Tuva
Heklunál: 3,0 mm
Uppskrift: engin

18. júlí 2013

Er ekki kertaljósatíminn að renna upp?

Það er eitthvað svo dimmt þegar það rignir og rignir að ég held að kertaljósatíminn sé runninn upp eitthvað fyrr en vanalega þetta árið. Ég elska kertaljós og stóðst ekki mátið að bjóða fram krafta mína þegar það var verið að leita að einhverjum til að prufuhekla þessa uppskrift... enda eru krukkurnar hennar Elínar svo flottar :)

Heklað utan um krukku


Ég á örugglega eftir að gera fleiri svona krukkur enda sætt mynstur en ég myndi þá nota fínna garn og/eða minni nál til að fá þær þéttari. Ég teygði þessa svolítið til að hafa hana þétta á krukkunni og fyrir vikið var hún svolítið gisin... en samt svaka flott :)

Garn: ONline Filetta
Heklunál: 1,75 mm
Uppskrift: http://www.ravelry.com/patterns/library/crocheted-jar-cover-3

9. júlí 2013

Umfjöllun í Húsfreyjunni

Í Húsfreyjunni sem var að koma út er umfjöllun og uppskriftir af hekluðu skyrdósunum mínum og hekluðu hitaplöttunum úr gömlum stuttermabolum.

Umfjöllun í Húsfreyjunni

23. apríl 2013

Bolagarn - garn gert úr stuttermabol

Var að búa til garn úr stuttermabol og ákvað að taka myndir til að leyfa ykkur að sjá hvernig ég geri þetta en ég notaði það þegar ég heklaði hitaplattann úr stuttermabol.

Efni og áhöld:
Lúinn stuttermabolur sem hættur er í notkun (bestir eru bolir sem eru saumalausir í hliðunum), góð skæri til að sníða með.

Bolagarn

Byrjum á því að klippa þvert yfir bolinn undir höndunum og klippa af faldinn neðst.

Bolagarn

Brjótið bolinn svo saman þannig að önnur hliðin er lögð upp að hinni en ekki alveg gott að hafa ca. 2 cm bil. Svo er klippt upp í bolinn þvert með ca. 2,5 cm bili en passið að klippa ekki alveg þvert yfir því að hin hliðin er notuð til að gera þetta að samfeldri lengju.

Bolagarn

Þegar búið er að klippa upp í bolinn þá er best að fletja út óklipptu röndina og klippa skáhalt á milli ræmanna. Þannig fæst löng samfeld ræma.

Bolagarn

Að lokum er farið yfir allt garnið og teygt svolítið á því og þá rúllast það aðeins upp og hægt að vinda það svo upp í hnykil.

Bolagarn

Ef  þið viljið skeyta saman og hafa t.d. garnið úr fleiri bolum eða þurfið að klippa þvottamiða af, þá er klippt smá gat á sitthvorn endann.

Bolagarn
 
Þá er endanum af viðbótinni stungið undir og í gegnum endann á garninu, og svo viðbótargarnið dregið í gegnum gatið á viðbótinni.
 

Bolagarn
 
Svo er togað varlega og þá er búið að skeyta garninu saman.
 

Bolagarn

Gott er að vinda svo garninu upp í hnykil... og þá er ekkert að vanbúnaði að fara að hekla eitthvað úr því.

P.S. Bolurinn er hreinn en það er fast kítti í honum :)

13. mars 2013

Sjampóbrúsi fær nýtt líf


Eins og kom fram í síðustu færslu þá er ég mjög hrifin af því þegar hægt er að búa til einhverja nytsamlega hluti úr hlutum sem annars færu í ruslið.

Ég kláraði hentugan sjampóbrúsa og ætlaði reyndar að reyna að gera hulstur undir símann þegar hann er í hleðslu en sá að síminn var of breiður... en ég fann önnur not fyrir hann eða sem hirsla sem hangir á veggnum við hliðina á töflunni minni og geymir núna töflutússið.

Brúsinn var mjög heppilegur því að það voru bara límmiðar á honum sem ég gat plokkað af... en hér kemur mynd af töflutússgeymslunni.



Hugmynd fengin héðan:
http://www.makeit-loveit.com/2011/12/holder-for-charging-cell-phone-made-from-lotion-bottle.html

7. mars 2013

Heklaður hitaplatti úr stuttermabol

Ég elska þegar hægt er að endurnýta hluti... nota hluti í stað þess að henda þeim og gefa þeim þannig framhaldslíf sem eitthvað allt annað :)

Ég var búin að hugsa um lengi að safna saman stuttermabolum sem voru orðnir lúnir af eiginmanninum og hekla mottu... en einhverra hluta vegna hafði ég ekki komið því í verk... núna þegar ég var að ganga frá þvotti þá ákvað ég að taka einn lúinn úr umferð og prófa að endurnýta hann. Ég hafði séð á netinu hvernig hægt væri að klippa boli til að fá langa ræmu sem er svo nýtt sem garn. Reyndar varð garnið mitt ekki eins fínt þar sem bolurinn sem ég var með var saumaður í hliðunum... en ég lét það duga... spurning um að versla framvegis bara saumalausa boli ;)

Hér er afraksturinn:

Heklaður hitaplatti úr stuttermabol

Heklaður hitaplatti úr stuttermabol


Garn: Stuttermabolur klipptur niður í ræmur
Heklunál: 12 mm.
Uppskrift: engin

Uppfært 24.04.2013
Hægt er að sjá hvernig gera má garn úr stuttermabolum hér:
http://www.fondrari.blogspot.com/2013/04/bolagarn-garn-gert-ur-stuttermabol.html

20. júlí 2012

Fleiri heklaðir blómapottar

Ég er eitthvað löt þessa dagana... það koma alveg dagar þar sem ég hvorki hekla né prjóna... er búin að vera á þvælingi í sumarfríinu ;) Annars er ég með tvö sjöl í gangi þar sem ég á bara kantinn á þeim eftir... reyndar er annað með kanti en mér fannst hann ekki nógu flottur þannig að ég er að bíða eftir hugljómun... svo er ég með lopapeysu á eina frænku á prjónunum og gríp í hana annað slagið og svo er ég búin að vera að hekla svolítið bleikt fyrir Sumar á Selfossi sem verður 11. ágúst... ætla ekki að skella neinum myndum inn af því fyrr en þá :)

Ég ákvað að skella inn myndum af þremur blómapottum í öðrum litum en bleikum... ég ætlaði að vera búin að hekla miklu fleiri því að góð vinkona reddaði mér svo mörgum tómum skyrdósum... en ég týndi heklunálinni sem ég notaði og var bara að finna hana... auðvitað hafði ég stungið henni inn í einhverja garnhnotu ;)





Ég þarf að hekla utan um fleiri því að ég á enn nokkur blóm í skyrdollum... ég er svolítið skotin í sumarlegum litum þessa dagna og finnst svolítið gaman að hafa fleiri en einn lit... reyndar held ég að ég nenni ekki að ganga frá svona mörgum spottum þannig að ég held að tvílitt sé málið ;)

2. júlí 2012

Heklað utan um skyrdós - uppskrift

Ég ákvað að hripa niður hvernig ég geri pottana þar sem nokkrir voru að biðja um uppskrift... amk svona gerði ég mína blómapotta en auðvitað getur verið að einhverjir aðrir hekli fastar eða lausar en ég :) Þegar ég var búin að hekla og setti utan um dósina þá náði heklið ekki alveg upp á brún en þegar ég hengi pottana með blómi í upp á krókinn þá strekkist á og þá nær heklverkið alveg upp að brúninni á dósinni.

Uppskrift af hekluðum blómapottum (heklað utan um skyrdós)

Efni og áhöld:
Garn mandarin petit, heklunál 3,5 mm, javanál til að ganga frá endum, stór skyrdós, hvítt málningarsprey (sem tollir á plasti), krókur og/eða naglar.

Aðferð:
1. umf. 4 loftlykkjur (ll) sem telst sem fyrsti stuðull, 11 stuðlar (st) í fyrstu ll. Tengja með keðjulykkju (kl) í 4 ll. Samtals 12 stuðlar.

Í öllum umferðum sem koma á eftir þá fer ég til skiptist með 1 kl áfram eða 1 kl aftur á bak þannig að samskeytin verða á sínum stað :)

2. umf. kl, 4 ll, * st, ll* (endurtaka út umferðina það sem er á milli * *) tengja með kl í 3 ll.
3. umf. kl, 4 ll, st, ll í sama loftlykkjuboga (llb), *st, ll, st, ll* í hvern loftlykkjuboga. Tengja með kl í 3 ll.
4.-6. umf. kl, 4 ll, * st, ll* í hvern llb. Tengja með kl í 3 ll.
7. umf. kl, 4 ll, * st, ll* í hvern llb, ll. Tengja með kl í 3 ll.
8.-13. umf. kl, 5 ll, * st, ll* í hvern llb, ll. Eyk út því að dollan er ekki bein. Tengja með kl í 3 ll.
14. umf. ll, fastalykkjur (fl) í hverja lykkju nema í lokin þrengdi ég um eina. Tengja saman með kl. Samtals 47 fl.

Klippa enda (hafa smá spotta) og ganga frá endunum þannig að þræða spottann svona tvo hringi utan um gatið á samskeytunum.

Ég (reyndar maðurinn minn) setti upp krók á skjólvegginn og hengdi blómapottinn á en mér fannst þetta vera á fleygiferð í roki þannig að maðurinn minn setti tvo nagla sitt hvorum meginn neðst við pottinn... og ég er að vonast til þess að potturinn verði kyrr... annars væri líka möguleiki að hengja pottinn upp á tvo króka :)

22. júní 2012

Heklaðir blómapottar ofl

Mér finnst alveg svakalega gaman að geta endurnýtt hluti... s.s. eins og að hekla utan um krukkur. Ég ákvað að hekla poka utan um risa sjampó- og hárnæringarbrúsa til að hengja upp í útisturtunni og þá kviknaði hugmynd...

Heklaðir pokar utan um sjampóbrúsa

... ég var búin nefnilega að þræða blómabúðirnar að leita að blómapottum til að hengja utan á skjólvegginn hjá mér en hafði ekki fundið neitt nema að ég sá eina bastkörfu sem kostaði 7 þúsund kall og ég hefði þurft nokkrar... þess vegna er ég alsæl með þessa brilljant hugmynd mína en ég ákvað að hekla utan um skyrdósir.... slæ margar flugur í einu höggi... spara pening, næ að endurnýta hluti og skreyti í leiðinni fyrir Sumar á Selfossi sem verður í ágúst :)

Heklað utan um skyrdósir


Svo sætir og ódýrir blómapottar :)

Ég ákvað að hafa heklið mjög einfalt og fljótlegt því að ég ætla að hengja amk 10 svona blómapotta á skjólveginn hjá mér... þannig að ég þarf að borða mikið skyr á næstunni ;) Ég spreyja dósirnar hvítar því að heklið er svo gisið og hengi þá upp á króka :) Takið líka eftir flotta húsnúmerinu sem ég föndraði eitt sinn ;)
Garn: Mandarin petit
Heklunál: 3,5 mm

10. ágúst 2011

Heklað utan um stóra krukku

Mér áskotnaðist fyrir nokkrum árum nokkrar risastórar krukkur sem ég hafði notað undir kerti en ákvað núna að hekla utan um eina til að skreyta fyrir utan hjá mér í tilefni þess að ég bý í bleika hverfinu á bæjarhátíð þar sem ég bý. Mér fannst þetta bara lukkast nokkuð vel en fannst ég verða að prufa að hekla líka utan um lokið svo að krukkan gæti staðið úti alltaf og myndi ekki fyllast af vatni... þannig að ég skelli bara lokinu á þegar ég er ekki að nota hana. Ég var nú samt í vandræðum með lokið þar sem ég sá nú fram á að þetta myndi fjúka af í næsta roki þannig að ég setti teppalím ofan á og smá á hliðina og vonandi dugar það til :)

Annar er ég svo svakalega symmetrísk að ég verð að hekla mér aðra :)






Garn: Sandnes Garn Mandarin Petit
Heklunál: 3,5 mm
Uppskrift: engin - er bara upp úr mér

16. apríl 2011

Litagleði - fleiri krukkur

Prófaði að hekla úr einbandi þar sem mér finnst litirnir vera svo fallegir... kemur ágætlega út þó að mér finnist samt bómullargarnið verða áferðarfallegra :)  Mun klárlega fara með nokkrar heklaðar krukkur í fellihýsið og nota þegar dimma fer í sumar :)

13. apríl 2011

Hekluð krukka - taka tvö :)

Ég var ekki lengur alveg sátt við hinar krukkurnar mínar... bæði fannst mér toppurinn vera svo víður og svo voru þær hvítar og mér fannst það bara eitthvað svo svakalega hvítt í dagsbirtu :)  Ég á nú orðið svolítið mikið af krukkum þannig að ég gerði aðra tilraun og ég datt niður á þessa lausn... og ég er líka ekkert smá ánægð með hana... finnst hún svo svakalega sæt og rómó :)

Aðalbreytingin er sú að kanturinn er nettari en ég gerði 5 x hálfstuðla og svo er auðvitað snúran sem strekkir að og puntar helling :) Mig langar að gera úr fínna garni en samt er ég á báðum áttum þar sem ég er svo svakalega hrifin af grófu... langar líka til að prófa að gera úr einbandi... sjáum til hvað verður úr :) Annars er ég að spá í að taka þessa með mér í búðina sem ég er að vinna í núna svo að aðrir geti séð hana :)



Garn: Mandarin Petit
Heklunál: 3,5 mm.

29. janúar 2011

Heklað utan um krukkur og lampa

Ég skoða mjög oft handavinnublogg og rakst á svakalegar flotta kertastjaka hjá Handóðri. Hún heklaði utan um krukkur og setti sprittkerti í... mér fannst þetta ekkert smá flott og auðvitað langaði mig til að gera eins, en hún var ekki með neina uppskrift þannig að ég gúgglaði og fann mjög flotta og einfalda uppskrift hjá naturenutnotes.com.



Það er nú oft þannig með mig að þegar ég sé eitthvað flott þá bara verð ég að gera það NÚNA... og það er sko ekki hætt fyrr en það er búið að klára verkið :) Ég var nú svo sem enga stund að gera þessa... og er reyndar búin að gera líka utan um tvær stærri krukkur... svo vatt þetta líka aðeins upp á sig því að mig hefur lengi langað til að hekla utan um IKEA lampa sem ég er með úti í glugga... ég var reyndar byrjuð á því en fannst það ekki nógu flott svo að ég bara rakti það upp og heklaði með sama mynstri og utan um krukkurnar :)



Er hrikalega ánægð með lampann... og á reyndar tvo aðra stærri í sama stíl... aldrei að vita hvort að ég hekli líka utan um þá einhvern tímann :)

Garn: Trysil Garn Tuva Helårsgarn
Heklunál: 3,5 (4,0 utan um lampann)
Uppskrift: http://www.naturenutnotes.com/2011/01/crochet-votive-tutorial.html
Athugasemdir: Aðvelt að gera. Passa að hafa vel strekkt utan um það sem verið er að hekla utan um.