2. júlí 2012

Heklað utan um skyrdós - uppskrift

Ég ákvað að hripa niður hvernig ég geri pottana þar sem nokkrir voru að biðja um uppskrift... amk svona gerði ég mína blómapotta en auðvitað getur verið að einhverjir aðrir hekli fastar eða lausar en ég :) Þegar ég var búin að hekla og setti utan um dósina þá náði heklið ekki alveg upp á brún en þegar ég hengi pottana með blómi í upp á krókinn þá strekkist á og þá nær heklverkið alveg upp að brúninni á dósinni.

Uppskrift af hekluðum blómapottum (heklað utan um skyrdós)

Efni og áhöld:
Garn mandarin petit, heklunál 3,5 mm, javanál til að ganga frá endum, stór skyrdós, hvítt málningarsprey (sem tollir á plasti), krókur og/eða naglar.

Aðferð:
1. umf. 4 loftlykkjur (ll) sem telst sem fyrsti stuðull, 11 stuðlar (st) í fyrstu ll. Tengja með keðjulykkju (kl) í 4 ll. Samtals 12 stuðlar.

Í öllum umferðum sem koma á eftir þá fer ég til skiptist með 1 kl áfram eða 1 kl aftur á bak þannig að samskeytin verða á sínum stað :)

2. umf. kl, 4 ll, * st, ll* (endurtaka út umferðina það sem er á milli * *) tengja með kl í 3 ll.
3. umf. kl, 4 ll, st, ll í sama loftlykkjuboga (llb), *st, ll, st, ll* í hvern loftlykkjuboga. Tengja með kl í 3 ll.
4.-6. umf. kl, 4 ll, * st, ll* í hvern llb. Tengja með kl í 3 ll.
7. umf. kl, 4 ll, * st, ll* í hvern llb, ll. Tengja með kl í 3 ll.
8.-13. umf. kl, 5 ll, * st, ll* í hvern llb, ll. Eyk út því að dollan er ekki bein. Tengja með kl í 3 ll.
14. umf. ll, fastalykkjur (fl) í hverja lykkju nema í lokin þrengdi ég um eina. Tengja saman með kl. Samtals 47 fl.

Klippa enda (hafa smá spotta) og ganga frá endunum þannig að þræða spottann svona tvo hringi utan um gatið á samskeytunum.

Ég (reyndar maðurinn minn) setti upp krók á skjólvegginn og hengdi blómapottinn á en mér fannst þetta vera á fleygiferð í roki þannig að maðurinn minn setti tvo nagla sitt hvorum meginn neðst við pottinn... og ég er að vonast til þess að potturinn verði kyrr... annars væri líka möguleiki að hengja pottinn upp á tvo króka :)

1 comments:

Kristín Hrund sagði...

Takk fyrir leiðbeiningarnar/uppskriftina - þetta er mjög skemmtileg hugmynd...

Skrifa ummæli