Sýnir færslur með efnisorðinu Páskar. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Páskar. Sýna allar færslur

27. mars 2016

Gleðilega páska!

Páskaskraut

Ég elska að skreyta fyrir jólin og páskana... mér finnst alltaf svo gaman að fá gula litinn inn með litlu páskaliljunum, gulum túlípönum, gulum kertum og föndraða páskaskrautinu frá ömmu :) Reyndar að þessu sinni var ég búin að hekla utan um nokkur egg en það er einmitt tilefni bloggfærslunnar í dag.... varð reyndar að smella einni mynd af krukkubakkanum mínum um páskana :)

Krukkubakkinn í páskafíling

En já aftur að hekluðu páskaeggjunum... hérna sjást þau öll saman á greininni minni. Amma gerði litlu fuglana fyrir ansi mörgum árum síðan og mér finnst þeir alltaf jafn sætir :)

Hekluðu páskaeggin

Ég setti inn uppskriftina mína af "skeljapáskaegginu" í gær og vonandi eiga einhverjir eftir að nýta sér hana. En ég átti eftir að blogga um hin tvö eggin sem ég heklaði utan um eftir uppskriftum sem ég fann á netinu.

Skeljapáskaegg


Það var mjög gaman að hekla eggin en ég þurfti að aðlaga uppskriftirnar svolítið. Fyrsta eggið sem ég gerði var netaeggið.

Heklað utan um egg

Uppskriftin var mynsturteikning og maður heklaði tvo helminga en svo fannst mér ekki segja mikið frá því hvernig maður átti að tengja þá saman... ég bætti því við einni umferð þar sem ég tengdi stykkin saman.

Heklað utan um egg

Svo var það seinna eggið en þarna var ég ekki nógu hrifin af uppskriftinni því að það var ekki fallegt á bakhliðinni því að þetta var svona svipað og þegar verið er að hekla utan um steina en þá var bara op á bakhliðinni... ég ákvað því að hekla tvö svona hjól og tengja saman á hliðinni í kross.

Ég á örugglega eftir að hekla fleiri egg í framtíðinni og þá held ég að ég væri til í að mála eggin... gæti alveg séð þau fyrir mér ljósbleik eða ljósgrá með hvítu heklugarni :)

Garn: DMC Babylo heklugarn nr. 10
Heklunál: 1,5 mm
Uppskriftir: http://www.fondrari.blogspot.is/2016/03/hekla-paskaegg-uppskrift.html,
http://lvly.nl/en/crochet-easter-eggs-pattern/ og http://www.flaxandtwine.com/2012/04/crochet-covered-easter-eggs-a-diy-tutorial/

25. mars 2016

Heklað páskaegg - uppskrift

Hekluð páskaegg - uppskrift

Ég er föndrari af lífi og sál eins og nafn bloggsins gefur til kynna og fyrir ansi mörgum árum dundaði ég mér við að blása úr eggjum sem ég svo málaði og skreytti fyrir páska. Þið getið séð myndir sem ég tók af þeim hér. Mig langaði því til að prófa að hekla utan um egg sem ég væri búin að blása úr. Ég rakst á nokkrar uppskriftir á netinu og prófaði að hekla tvö sem voru mjög sæt (sýni ykkur þau von bráðar) en svo langaði mig til að hekla bara upp úr mér með Skeljakrukku mynstrinu.

Heklað páskaskraut

Ég var mjög ánægð með útkomuna og ákvað að hekla utan um annað egg og skrifa uppskriftina niður og gefa ykkur í tilefni páskanna :) Ég komst að því að egg eru mjög mismunandi að stærð og því var seinna eggið mun stærra en hið fyrra. Þið gætuð því þurft að aðlaga uppskriftina að egginu sem þið eruð að hekla utan um hverju sinni.


Heklað páskaegg

Ekki afrita og dreifa uppskriftinni sjálfri en þið megið að sjálfsögðu deila linknum á uppskriftina að vild.

Efni og áhöld:
1,5 mm heklunál,
Heklugarn nr. 10,
1 hænuegg.

Skammstafanir:
ll = loftlykkja,
kl = keðjulykkja,
fl = fastalykkja,
st = stuðull,
llb = loftlykkjubogi,
L = Lykkja,
umf = umferð,
2hstsam = úrtaka, fara með nálina í næstu L og ná í bandið, slá bandinu upp á og fara með nálina í næstu L og ná í bandið, slá bandinu upp á og fara í gegnum allar 4 L á nálinni.

Athugið í byrjun umferðar gerið þá 3 ll í staðinn fyrir st.

Aðferð:
Skolið eggið og þurrkið. Blásið úr egginu en það er gert með því að gera gat á breiðari enda eggsins með grófri nál eða títuprjóni, stingið nokkrum sinnum þannig að gatið verði ca 2-3 mm í radíus, gerið svo annað gat að ofanverðu en hafið það minna. Passið að það komi ekki sprunga í eggið því að ef það gerist þá fáið þið allt gumsið framan í ykkur. Blásið því næst í minna gatið yfir skál og þá ætti eggjahvítan og svo rauðan að leka út úr egginu. Skolið vel og látið þorna.

Þegar eggið er orðið þurrt þá er hægt að fara að hekla utan um það en athugið að eggið er að sjálfsögðu viðkvæmt þannig að þið þurfið að fara blíðum höndum um það :) Þið getið málað eggið áður eða einfaldlega heklað utan um það með heklugarni sem er ekki samlitt. Ég notaði stór brún vistvæn egg og hvítt heklugarn.

Heklað utan um egg:
Gerið galdralykkju (magic ring).
1. umf: 20 stuðlar í hringinn. Dragið galdralykkjuna saman, kl í fyrsta st.
2. umf: *st, ll, hopppa yfir næstu L, (2 st, ll, 2 st) í næstu L, ll, hoppa yfir næstu L*, endurtaka það sem er á milli * * 4 sinnum til viðbótar, kl í 3. ll í upphafi umf. (samtals 5 stuðlahópar og 5 stuðlar).
3. umf: *st í st frá fyrri umf, 2 ll, (2 st, ll, 2 st) í gatið á milli stuðlahópanna, 2 ll*, endurtakið það sem er á milli * * út umf, kl í 3. ll í upphafi umf.
4. umf: *st, 2 ll, (3 st, ll, 3 st) í gatið á milli stuðlahópanna, 2 ll*, endurtakið það sem er á milli * * út umf, kl í 3. ll í upphafi umf.
5. umf: *st, 3 ll, (3 st, ll, 3 st) í gatið á milli stuðlahópanna, 3 ll*, endurtakið það sem er á milli * * út umf, kl í 3. ll í upphafi umf.
6. umf: eins og 4. umf.
7. umf: eins og 4. umf (þið gætuð þurft að sleppa þessari umf ef eggið er minna).
8. umf: *st, ll, (3 st, ll, 3 st) í gatið á milli stuðlahópanna, ll*, endurtakið það sem er á milli * * út umf, kl í 3. ll í upphafi umf.
9. umf: eins og 8. umf (þið gætuð þurft að sleppa þessari umf ef eggið er minna).
10. umf: eins og 2. umf. Þarna þurfti ég að setja eggið inn í stykkið áður en ég kláraði umferðina. Gott að ganga frá upphafsendanum áður.
11. umf: *st í næsta st, 2 ll, fl í gatið á milli stuðlahópanna, 2 ll*, endurtakið það sem er á milli * * út umf, kl í 3. ll í upphafi umf.
12. umf: ll, *2 fl í llb, hoppa yfir fl, 2 fl í llb, hoppa yfir st*, endurtakið það sem er á milli * * út umf, tengið með kl í ll í upphafi umf.
13. umf: ll, 2hstsam út umf, tengið með kl. Endið á því að gera 2-3 ll og tengið með kl þvert yfir opið en þetta nota ég sem upphengilykkju sem ég festi skrautborða í til að geta hengt eggið upp. Klippið og gangið frá enda.

© Ólöf Lilja Eyþórsdóttir - það má ekki afrita uppskriftina á neinn máta án míns samþykkis.

Hér er svo linkur á uppskriftina á Ravlery fyrir þau ykkar sem eru þar:

http://www.ravelry.com/patterns/library/easter-egg-15

Hekluð egg

1. mars 2013

Hekluð páskalilja

Ég les oft handavinnublogg... og eitt af bloggunum sem ég elska er bloggið hennar Lucy :) Hún setti inn í gærkvöldi uppskrift af hekluðum páskaliljum... og auðvitað smellti ég í eina en ég var búin að skoða mikið af uppskriftum og hafði ekkert fundið sem ég féll alveg fyrir :)


Mjög auðveld uppskrift en hún er einnig með mikið af myndum... ef ég myndi gera fleiri þá held ég að ég myndi vilja hafa bikarinn hærri og svo er spurning með annað garn... fræbblanir rakna bara upp :)

Hekluð páskalilja

Garn: Kambgarn
Heklunál: 3,5 mm
Uppskrift: http://attic24.typepad.com/weblog/crochet-daffodil.html

3. apríl 2012

Einfalt páskaföndur

Vantar ykkur eitthvað einfalt að föndra fyrir páskana? Þá er þetta svakalega flott handa skvísum á öllum aldri ;) Þið þurfið bara gula hárspöng, nokkra unga og lím :)


G L E Ð I L E G A   P Á S K A !

Einfalt páskaföndur - páskaspöng

18. apríl 2011

Gleðilega páska

Þá er ég búin að föndra páskaungana... þeir eru nálarþæfðir og auðvitað verða smáslys... maður stingur sig nokkrum sinnum og svo náði ég enn einu sinni að brjóta nálina... ég veit ekki hvort að þetta gerist oft hjá öðrum... en þetta er amk í annað sinn sem ég brýt þæfingarnál :) Þannig að ekki urðu þeir fleiri en tveir að sinni :)

Vonandi hafið þið það gott um páskana... ég ætla amk að hafa það mjög gott og prjóna og hekla alla páskana... mmmm ekki slæmt :)


Efni: Kemba
Uppskrift: Spennandi þæfing

17. apríl 2011

Föndrað páskaskraut

Það eru alveg að koma páskar :)


Þar sem ég er með saumaklúbb á þriðjudaginn þá ákvað ég að skreyta smá fyrir stelpurnar þó að páskarnir séu nú ekki komnir. Ég smellti því nokkrum myndum af páskaskrautinu mínu .

Eggin gerði ég árið 2004. Stakk á þau göt og blés úr þeim, málaði svo og skreytti. Hef nú ekki nennt þessu aftur en maður fékk alveg nóg af því að blása úr þeim... en ég held að ég hafi bara föndrað yfir mig af þeim en ég gerði fleiri því að ég gaf tengdamömmu og svo tengdaömmu líka :)





Svo koma nokkrar myndir af skrauti sem amma mín bjó til fyrir mörgum árum síðan... elska skrautið hennar en ég fékk föndurgenið frá henni :) Bíðið bara þangað til að jólin koma og ég get sýnt ykkur myndir af jólaföndrinu hennar :)






Ég er nú að föndra smá núna en ég er að þæfa páskaunga... smelli myndum síðar af því þegar ég er búin með þá :) Svo gerði ég líka páskaspöng einu sinni en þið getið séð myndir af henni hér. 

29. janúar 2011

Hárspangir og hattur

Ég hef stundum föndrað ýmislegt fyrir einhverjar uppákomur. Þessa bleiku með blóminu gerði ég árið 2010 fyrir blómaþema í matarboði í einum saumaklúbbnum mínum. Ég fann risablóm í Rúmfatalagernum og tók stilkinn af. Mamma átti bleikan borða sem ég vafði og saumaði svo utan um spöngina og að lokum saumaði ég blómið á spöngina.

Þessa gríðarlega fallegu páskaspöng gerði ég árið 2009 fyrir gulan dag í vinnunni í tilefni þess að það var páskabingó hjá starfsmannafélaginu. Eins og sjá má þá var ansi fljótlegt að föndra hana... bara gul spöng, nokkrir páskaungar og svo UHU lím :)
Þennan skrautlega hatt gerði ég fyrir hattadaginn í vinnunni í tilefni skráningar á árshátíð 2009. Ég keypti hattinn í Partýbúðinni og líka fjólubláu perlufestarnar, blómin í Blómaval líka skrautfjöðrina... svo var bara notað fullt af UHU lími :)