21. febrúar 2011

Prjónamerki

Ég hef aldrei átt nein fín prjónamerki. Ég hef nú bara notað garnspotta sem ég setti hnút á svo að þeir mynduðu lykkju og svo notaði ég öryggisnælu í heklinu þar sem það þarf að vera hægt að opna það... hafði reynt að nota bréfaklemmu en hún datt oft úr  :) Þau gerðu sitt gagn en mér fannst samt garnprjónamerkin detta ansi oft af án þess að ég yrði vör við það... en kannski ér ég bara klaufi :)


Ég var í gær að stytta hálsmen sem ég gerði og fyrst að ég var á annað borð komin með skartgripadraslið á borðið þá var ekki annað hægt að en búa mér til almennileg prjónamerki... amk fallegri :)


Fyrst prufaði ég að gera með grænum perlum... en mér fannst þau ekki vera ég... svo að ég gerði bleik og þau hittu í mark... ég er nú svolítið hrifin af bleiku :) Svo gerði ég eitt opnanlegt sérstaklega fyrir heklið en það er í raun bara eyrnalokkur :)

17. febrúar 2011

Hekluð motta - uppskrift til sölu

Ég ákvað að prófa að setja uppskriftina til sölu á Ravelry. Ég mun vonandi fljótlega setja hana líka inn á ensku. Uppskriftin kostar 3,5 dollara (400 kr) en ef þið hafið ekki Paypal eða aðgang að Ravelry en langar til að kaupa uppskriftina þá getið þið sent mér tölvupóst á fondrari@gmail.com og þið gengið frá greiðslu með öðrum hætti.Hér er uppskriftin á Ravelry:
http://www.ravelry.com/patterns/library/heklu-motta

Þið getið líka smellt hérna til að ganga frá kaupum á uppskriftinni inni á Ravelry:


Viðbót 23.01.2013
Ákvað að taka uppskriftina úr sölu og hafa hana ókeypis amk um tíma :)

Prjónaðir ullarsokkar með totuhæl á einn hringprjón

Mín frumraun í að prjóna ullarsokka og líka að prjóna tvo hluti á einn hringprjón. Hér getið þið séð aðferðina en hún er algjör snilld: http://www.youtube.com/watch?v=n1WFCfdNu5g

Ég hefði óskað þess að ég hefði keypt einlitan lopa... finnst litaskiptingin ferlega ljót og því finnst mér sokkarnir ljótir :S... en svo sem vel hægt að nota þá :) Uppskriftin var samt mjög fín og auðveld.

Hérna sjáið þið betri hliðina:


... og svo er verri hliðin hér:Svo fannst mér þeir vera full stórir á kallinn... kannski er ég bara farin að prjóna svona svakalega laust... en ég skellti þeim bara í þurrkarann eftir þvott og held að þeir passi fínt núna :)

Garn: Álafoss lopi
Prjónar: 5,5 (Ég prjónaði stroffið með 5,0)
Uppskrift: http://bland.is/messageboard/messageboard.aspx?advid=22929192&advtype=59

Betri myndir af hekluðu mottunni

Bjartur dagur og gat því tekið betri myndir ef hekluðu mottunni enda var svo dimmt þegar ég tók myndirnar að mynstrið sást engan veginn :)
Uppskrift af mottunni er til sölu:
 
 
Viðbót 23.01.2013
Ákvað að taka uppskriftina úr sölu og hafa hana ókeypis amk um tíma :)

14. febrúar 2011

Valentínusardagurinn

Við hjónin höldum nú ekki upp á þennan dag sérstaklega... en er svo sem ekki allt í lagi að gera eitthvað smá sætt handa ástinni sinni sama hvaða dagur er?

Maðurinn minn elskar bækur... svo að mér fannst tilvalið að gefa honum þetta í dag :)
Í uppskriftinni er þessi hjörtu í lengju (garland)... það finnst mér voðalega sætt og það er aldrei að vita að ég búi til svona lengju einhvern daginn :)

Garn: Trysil Garn Sportsgarn
Heklunál: 4,0
Uppskrift: http://www.skiptomylou.org/2009/01/28/crochet-heart-garland/

13. febrúar 2011

Heklaðir barnavettlingar

Hef lengi ætlað að hekla vettlinga (eins og svo margt annað). Ég sá að Eyþór frændi minn var í ansi litlum vettlingum á leikskólanum fyrir jól... þannig að ég lét verða að því núna að hekla vettlinga handa honum... vona bara að þeir passi á hann. Þetta er sem sagt frumraun mín vettlingahekli... ætli það sé til aðferð til að hekla tvo vettlinga í einu eins og að prjóna tvo í einu? ;) Ætli ég drífi svo ekki í að hekla stærri vettlinga handa systur hans :)Garn: Trysil Garn Oda
Heklunál: 6,0
Uppskrift: upp úr mér

Viðbót 18. febrúar 2011 
Vettlingarnir smellpössuðu á frænda... og hann er svo ánægður með þá að hann er með þá inni á deild á leikskólanum :)

11. febrúar 2011

Hekluð motta

Þá er ég loksins búin með mottuna... reyndar tók hún nú ekkert svakalegan tíma en ég var bara búin að hugsa svo lengi um að hekla mottu :)

Hér er afraksturinn... kanturinn í kringum var aðalhöfuðverkurinn því mér fannst vanta eitthvað smá punt án þess að vera með of mikið... þar sem þetta er jú bara gólfmotta :)
Ég þyrfti að reyna að taka myndir þegar það er bjartara úti svo að mynstrið sjáist betur :)

Viðbót 17. febrúar 2011:
Uppskrift af mottunni er til sölu:

Búin að taka betri myndir:

Ótrúlegur munur á myndunum... gott að hafa sólina ;) Á þessum myndum er ekki hægt að sjá mynstrið en það sést mjög vel á nýju myndunum :)
 
Viðbót 23.01.2013:
Ákvað að taka uppskriftina úr sölu og hafa hana ókeypis amk um tíma :)

8. febrúar 2011

Heklaðar glasamottur

Mér finnst þessar glasamottur svo sætar.... en ég er reyndar ekki alveg viss um að ég muni nota þær mikið :) Þetta er mjög auðvelt og gott byrjendaverkefni.

Ég reyndar sá þegar ég var búin með grænu að það væri sennilega flottara að nota magicloop í byrjuninni í staðinn fyrir að hekla alla stuðlana í fyrstu loftlykkjuna. Ég hefði líka viljað vera með grófara bómullargarn til að hafa þær örlítið stærri. Ég prófaði að hekla eina umferð til viðbótar en þá fannst mér þær of stórar. Ég vildi heldur ekki gera þær með stærri nál því að þá myndi mér finnast þær vera of gisnar :)
Garn: Trysil Garn Tuva Helårsgarn
Heklunál: 4,0

7. febrúar 2011

Kommentakerfið er komið í lag

Ég fattaði allt í einu í gær að ég var með stillinguna þannig að hver sem var gat ekki kommentað... þetta var alveg óviljandi en ég er sem sagt er búin að breyta því þannig að nú getur hver sem er kommentað hjá mér :)

Best að halda áfram að hekla... er með margt í takinu... er að hekla ungbarnapeysu, prjóna ullarsokka, prjóna fingravettlinga sem ég er ekki viss um að nenna, hekla glasamottur og hekla enn eitt sjalið :)