24. mars 2016

Lopapeysa á bróður minn

Prjónuð lopapeysa


Þá get ég loksins bloggað um það sem ég er búin að vera að dunda mér við síðan í febrúar... það kostaði svolitla vöðvabólgu en mér finnst alltaf gaman að prjóna lopapeysur þannig að það er þess virði :)

Það er svolítið langt síðan ég hef prjónað og ég þurfti að gera þrjár prjónafestuprufur en ég endaði á að þurfa að nota númeri stærri prjóna en gefið var upp í uppskriftinni.... en prjónafestuprufur eru nauðsynlegar svo að peysan myndi nú passa á bróður minn en hann varð fertugur fyrir nokkrum dögum. Hann spurði mig fyrir nokkrum árum hvort að ég myndi ekki prjóna á hann lopapeysu eftir að ég hafði verið búin að prjóna á allar dætur hans og jafnvel fleiri en eina... en ég sagði við hann að ég skyldi gera það þegar hann myndi hætta að reykja... jæja ég var búin að sjá að þá myndi hann aldrei eignast lopapeysu frá mér þannig að ég ákvað að nota tækifærið þegar hann varð fertugur að gefa honum eina. Hann valdi sjálfur mynstrið og vildi hafa hana brúntóna en ég fékk að velja litina.

Frost úr Lopa 29

Bróðir minn er mjög ánægður með gjöfina og ég líka :)

Prjónuð hettupeysa

Hettan vafðist pínu fyrir mér en það var þegar kom að úrtökunni á toppnum en ég var búin að prjóna og rekja úrtökunni á henni nokkrum sinnum þar til að ég fattaði að það væri villa í uppskriftinni (amk í stærð XL) en það átti að vera prj. 45 L og taka svo úr, enda gat þetta ekki átt að vera þannig að úrtakan stæðist ekki á :)

Garn: Álafosslopi
Prjónar: 5,5 mm og 7,0 mm (6,0 mm í uppfit)
Uppkrift: Frost - Lopi 29

0 comments:

Skrifa ummæli